Helgi fyrr í mótinu gegn kínversku sveitinn M.Livshitz / heimasíða móts

Íslenska liðið vann sína þriðju viðureign í röð og í þetta skiptið var enginn afgangur. Austurríkismenn voru lagðir 4-0 afgreitt, staðgreitt og ekkert þjórfé!

Greinilegt var að íslenska liðið vildi stimpla sig vel inn aftur eftir helst til of tæpan sigur í 2. umferð þar sem kínverska kvennasveitin var lögð að velli 2,5-1,5.

Andstæðingar dagsins voru nokkuð stigalægri en okkar menn og FM Andreas Druckenthaner hvíldi þannig að allir Austurríkismennirnir voru 65+ og Wolfgang Denk á 4. borði nokkuð veikari, með 1581 elóstig.

Þröstur að tafli Mynd: Mark LIvshitz / Heimasíða mótsins

Þröstur setti snemma tóninn með öruggum sigri. Andstæðingu Þrastar tefldi nokkurn veginn í samræmi við elóstig sín og fóru menn svarts á klaufalega reiti og liðsskipan var ekki kláruð. Þröstur týndi upp nokkra kalla og uppgjöfin kom í 20. leik.

Snemma var einnig orðið ljóst að Margeir stæði vel með hvítu. Andstæðingur hans tefldi vafasaman gambít í byrjun 4…b5?! gegn f3 afbrigðinu í Nimzanum.

Fljótlega eftir það fórnaði Austurríkismaðurinn skiptamun en fékk ekki nægjanlegt spil og Margeir skipti upp í endatafl og vann nokkuð auðveldlega.

Jóhann hafði svart á efsta borði og virtist vera að yfirspila sinn andstæðing stöðulega megnið af skákinni. Jóhann réð yfir opinni línu á meðan menn hvíts voru passífir. Merkilegt nokk er hvítur enn inni í skákinni í lokin ef hann leikur 52.Bf4 en 52.Rd3? voru einfaldlega taktísk mistök.

Skák dagsins var klárlega hjá Jóni L. á þriðja borði. Jón var einn af fáum stórmeisturum sem beitti oft kóngsbragðinu „í gamla daga“. Það var því skemmtilegt að sjá hann kljást við það í skák dagsins. Austurríkismennirnir verða allavega ekki sakaðir um að tefla leiðinlega og jarma bara á jafntefli, það er kóngsbragð og læti!

Jón valdi hressilegt afbrigði og svartur er kominn með valdað frípeð á f3 snemma tafls!

Austurríkismaðurinn vann svo mann þannig að við fengum miðtafl þar sem svartur hafði einhver peð fyrir manninn og auðvitað ennþá peðið á f3.

Þetta f-peð átti eftir að reynast mikilvægt! Jón fórnaði hrók til viðbótar og var hróki og mann undir en peðin orðin ansi skeinuhætt!

Hvítur átti tölvulega björgun hér með 33.Rg6+ Kg4 34.Hxc5 og leyfir svörtum að vekja upp þar sem Hxe4+ kemur og skákar drottninguna af. Austurríkismaðurinn sá þetta ekki og peðin reyndust of sterkt og hvítur gafst upp þegar f-peðið var einum reit frá því að verða að drottningu.

Íslenska sveitin er efst ásamt ensku sveitinni. Bandaríkjamenn misstu jafntefli gegn Makedónum og voru heppnir að tapa ekki.

Zvonko Stanojoski hafði svart gegn Yermolinski hjá Bandaríkjamönnum og lék 29…Hxa3?? en 29…Hxf3! er unnið á svart.

Íslendingar og Englendingar mætast því í fjórðu umferðinni. Ísland hefur hvítt sem er líklega nokkuð mikilvægt þegar kemur að því að draga vígtennurnar úr Adams á efsta borði.

Mikilvæg viðureign framundan og verður spennandi að fylgjast með á morgun!

Taflmennskan hefst klukkan 13:00 alla daga og beinar útsendingar eru á Chess.com og Chess24 og eru skákskýringar Alex Colovic á chess24 hlekknum.

Íslenska liðið er númer fimm í styrkleikaröðinni og liðið skipa fjórmenningaklíkan auk Þrastar Þórhallssonar, allt stórmeistarar.

  1. Helgi Ólafsson (2491)
  2. Jóhann Hjartarson (2432)
  3. Margeir Pétursson (2396)
  4. Jón L. Árnason (2419)
  5. Þröstur Þórhallsson (2382)

Bandaríkin og England hafa feykisterk lið og bandaríska liðið er mjög sigurstranglegt. Alls eru 22 sveitir skráðar til leiks.

- Auglýsing -