Bárður Örn Birkisson heldur áfram að sigla með himinskautum á Haustmóti Taflfélags Reykjavíkur. Í sjöttu umferðinni lagði Birkir landsliðsmanninn Hilmi Frey Heimisson að velli með svörtu mönnunum sem þýðir að Bárður er enn með fullt hús á Haustmótinu!

Staðan fyrir umferðina var svona:

Bárður hafði 5 vinninga og svo var röðin: Hilmir Freyr með 4,5 vinning og Stefán með 4 vinninga. Morgunljóst að einn þessara þriggja hreppir titilinn í ár!

Hilmir hafði hvítt gegn Bárði í nánast úrslitaskák!

Margir hefðu veðjað á auðveldan sigur landsliðsmannsins Hilmis Freys á Haustmótinu en Bárður er einfaldlega í svakalegu formi og síðan hann tryggði sér sæti í landsliðsflokki hefur hann unnið allar sex kappskákir sínar, þar með talda þessa skák gegn Hilmi!

Það má segja um Bárð og eins þá tvíbura að þeir tefla yfirleitt af miklu öryggi og eru ekki mikið að leika af sér. Hilmir tefldi enska leikinn og fékk eiginlega fáa sénsa ef undan er skilinn 15. leikur hvíts.

Hér missti Hilmir af góðum séns. 15.Rxc6! er sterkur leikur samkvæmt tölvuforritum en það eru samt miklar flækjur á ferð fyrir mannsheilann og ekkert auðvelt að sjá eða útskýra af hverju sá leikur er góður.

Fyrir utan þetta eina augnablik fer tölvumatið aldrei meira en 0.3 í plús/mínus aðra hvora áttina fyrr en Hilmir lék illa af sér.

28.Df4?? lætur lítið yfir sér en er í raun tapleikurinn. Bárður skynjaði augnablikið og tók sinn séns. 28…c5! eini leikurinn sem vinnur. 29.Rf3 Hf5! og það kemur á daginn að hvítur á engan góðan reit fyrir drottninguna. Eftir 30.Dh4 g5!

…vinnur svartur lið. Hótunin að leppa riddarann á f3 með De4 og setja á hrókinn á c2 er of sterk. Í ofanálag valdar riddarinn á b6 reitinn á c4 þannig að allt gengur upp fyrir svartan.

Bárður vann mann og sigldi vinningnum algjörlega skammlaust heim.

Þessi sigur hjá Bárði þýddi að Stefán Steingrímur Bergsson varð nauðsynlega að ná í sigur gegn Jóhanni Ingvasyni.

Stefán fékk aðeins þægilegra tafl með góðan riddara gegn biskup en staðan var mjög þröng og kannski ekki margir sénsar á að brjótast í gegn.

Í þessari stöðu átti Stefán mjög athyglisverða leið til að pressa. Hér hefði 38.Kh2!? verið mjög athyglisverð leið. Hugmyndin er að leika næst Hh1 svo Kg1 og Hh4 og endurtaka fyrir næsta hrók. Kóngur fer á h2, hinn hrókurinn á h1 og svo kóngur á g1 og hvítur er búinn að tvöfalda á h-línunni. Þessar tilfæringar minna óneitanlega á leikinn á myndinni að neðan!

Stefán valdi skarpari aðgerðir og hafði ekki þolinmæði í slíkar tilfærslur og sprengdi stöðuna upp. Það bar árangur þegar Jóhann skipti upp á c3 sem var ekki réttur leikur

45…Kh7 hefði verið eðlilegri en hvítur samt með betra en 45…Kg7?? fór úr öskunni í eldinn og Stefán stóð til vinnings eftir 46.Rxe6+!

Mikilvægur sigur hjá Stefáni sem er nú líklega sá eini sem getur veitt Bárði samkeppni og mætast þeir í lokaumferðinni!

Lenka virtist fá aðeins þægilegri stöðu, biskupaparið og pressu en Haraldur varðist tilburðum hvíts og stóð líklegast aðeins betur þegar þráleikið var.

Ingvar Wu Skarphéðinsson hafði hvítt á Gauta Pál Jónsson í mikivægri skák í baráttunni um að verða skákmeistari Taflfélags Reykjavíkur. Gauti gerði eiginlega allt rétt gegn London og fékk fína stöðu og vann skiptamun og hefði átt að standa til vinnings. Einhvern veginn tókst svörtum ekki að gera sér mat úr skiptamunsvinningnum og þegar riddarar Ingvars voru orðnir ógnandi gaf Gauti skiptamuninn til baka og jafntefli voru nánast þvinguð úrslit eftir það.

Síðasta skákin var viðureign Þorvarðar F. Ólafssonar með hvítt gegn Birni Hólm Birkissyni með svart. Björn fékk nokkuð þægilega stöðu með svörtu og komst í endatafl peði yfir þó vissulega væru mislitir biskupar. Björn fann bestu leiðina til að reyna að þvinga fram vinning, slengdi h-peði sínu fram til að mynda tvöfalda frelsingja á e- og f-línunni. Þessir frelsingjar reyndust of sterkir og Björn fann vinning í endataflinu.

Stóri sigur hjá Bárði og mikilvægur sigur hjá Stefáni til að halda mótinu opnu.

Bárður hefur vinningsforskot á Stefán og Hilmir þarf nú að treysta á aðra til að vinna upp 1,5 vinning á Bárð.

Í sjöundu umferð eru engar afgerandi viðureignir þannig að þungamiðjan færist svolítið mikið í lokaumferðina þar sem Bárður og Stefán mætast.

Opinn flokkur

Spennan í opna flokknum var mikil. Þrír voru efstir og jafnir fyrir umferðina.

Á efsta borði mættust Adam Omarsson og Jóhann Ragnarsson á meðan Mikael Bjarki fékk auðveldari skák á pappírnum gamla góða gegn Markúsi Orra. Mikael vann sína skák og því spurning hvort að strákarnir á efsta borði næðu að fylgja honum eftir.

Adam byrjaði vel og tefldi sterkt gegn drottningarbragði Jóhanns og hafði betra tafl lengst af. Jóhann fór í mótspil á kóngsvæng og Adam passaði sig ekki á lykilaugnabliki.

32.Hb5?? reyndist tapleikurinn 32…Df3! og hótanir svarts eru orðnar illviðráðanlegar. Hvítur hefði getað bjargað málum með 32.Db8 en mistökin voru líklega aðeins fyrr í skákinni.

Sverrir Sigurðsson og Benedikt Þórisson halda í við toppinn með góðum sigrum í sínum skákum.

Jóhann og Mikael því orðnir efstir með 5 vinninga af 6 mögulegum. Mikael er í efsta sætinu á stigum þar sem hann vann innbyrðisviðureign efstu manna.

Í 7. umferð fær Jóhann hvítt á Sverri á meðan að Mikael Bjarki mætir Benedikt.

Teflt er í skákhöllinni í Faxafeni 12. Umferðir hefjast 18:30 á virkum dögum en 13:00 um helgar.

- Auglýsing -