Öðrum keppnisdegi á HM ungmenna í skák á Ítalíu lauk fyrr í kvöld.
12 Íslendingar taka þátt og eru þeir í eftirfarandi fimm flokkum:
Opinn flokkur U18
FM Aleksandr Domalchuk-Jonasson
Benedikt Briem
Benedikt Þórisson
Þorsteinn Jakob F Þorsteinsson
Opinn flokkur U16
Ingvar Wu Skarphéðinsson
Adam Omarsson
Stúlnkaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir
Opinn flokkur U14
Mikael Bjarki Heiðarsson
Matthías Björgvin Kjartansson
Markús Orri Jóhannsson
Markús Orri Óskarsson
Stúlnkaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem
Fararstjórar og þjálfarar í ferðinni eru þeir Björn Ívar Karlsson og Gauti Páll Jónsson.

Opinn flokkur U18
Aleksandr Domalchuk-Jonasson voru mislagðar hendur í byrjuninni með hvítu gegn Chen frá Kína. Svartur hékk og peði sem hann vann og fékk í framhaldinu frítt spil á drottningarvæng. Aleksandr reyndi sitt besta að verjast en varð að leggja niður vopn um síðir. Ekki draumabyrjunin á mótinu fyrir Aleksandr en nóg er eftir enn.
Benedikt Briem og Þorsteinn Jakob mættust í umferðinni. Óheppileg pörun, að koma alla leið til Ítalíu til þess að tefla við félaga sinn, en svona er þetta stundum á þessum mótum. Upp kom g3-afbrigði gegn Grunfeld og Bendikt fékk betra tafl eftir byrjunina. Þorsteinn Jakob valdi rangt plan og svörtu mennirnir enduðu illa staðsettir, sérstaklega riddarinn á h6. Benedikt náði að setja mikla pressu á miðborðspeð Þorsteins sem hrundu á endanum. Nokkuð sannfærandi sigur Benedikts.
Benedikt Þórisson hafði hvítt gegn Yeh frá Taiwan. Yeh tefldi Kaffihúsa-Petroff sem Jón Viktor Gunnarsson fjallaði ítarlega um í nýjasta tölublaði Tímaritisins Skákar. Það vill svo skemmtilega til að íslenski hópurinn hefur lesið blaðið og var vel að sér í fræðunum. Benedikt tefldi mjög nákvæmt og svartur fékk ekki þau færi eftir byrjunina eins og hann vonaðist eftir. Benedikt vann annað peð til viðbótar og eftirleikurinn var auðveldur. Þægilegur sigur.

Opinn flokkur U16
Adam Omarsson hafði svart í kóngs-indverskri vörn gegn Hadjidemetriou frá Kýpur. Andstæðingur Adams hafði eingöngu leikið 1. e4 fram að þessu og ætlaði, að því er virtist, að koma Adam á óvart. Þegar leið á skákina kom reynsla Adams í byrjuninni í ljós og hann fékk afar hættuleg færi á kóngsvæng. Hvítur átti smá sprikl en sigur Adams var aldrei í hættu.
Ingvar Wu Skarphéðinsson byrjaði mótið vel með góðum sigri í 1. umferð. Í umferð dagsins hafði hann hvítt gegn sterkum og stigaháum indverskum skákmanni, FM Harsh. Ingvar tefldi traust og skákin var allan tímann í jafnvægi. Á einum tímapunkti gat Ingvar komist út í hróksendatafl sem var örlítið betra á hvítt. Engu að síður voru jafntefli alltaf líklegustu úrslitin og þannig endaði skákin að lokum, eftir langa baráttu. Góð byrjun á mótinu hjá Ingvari.
Stúlknaflokkur U16
Iðunn Helgadóttir hafði svart gegn Kotliar frá Austurríki. Iðunn fékk upp Taimanov–afbrigði Sikileyjarvarnar eins og til var ætlast. Með breyttri leikjaröð náði andstæðingur hennar að rugla hana í ríminu og hún fékk upp vafasama stöðu. Stöðu sem Guðmundur Sigurjónsson stórmeistari hafði fengið upp gegn Soltis árið 1973 (https://www.chessgames.com/perl/chessgame?gid=2553168). Svartur er með tapað tafl eftir 14. Dc5 og 15. Bc4 – en eins og Soltis valdi andstæðingur Iðunnar ekki bestu leiðina, skipti upp á drottningum sem gaf Iðunni færi. Hvítur tefldi ekki nægilega nákvæmt í framhaldinu, nýtti ekki peðin sín á drottningarvængnum og Iðunn tók smátt og smátt yfir skákina. Baráttusigur hjá Iðunni.

Opinn flokkur U14
Markús Orri Jóhannsson fékk svart á 2250 stiga mann, Peter Balint frá Austurríki. Markús fékk góða stöðu úr byrjuninni í ítölskum leik en voru mislagðar hendur í miðtaflinu. Ónákvæmur f6 leikur og illa staðsettur riddari urðu til þess að Markús tapaði liði í framhaldinu. Taflmennskan í byrjuninni ber þess þó merki að Markús Orri á í fullu tré við sterka andstæðinga í flokknum og á mikið inni eftir erfiða byrjun á mótinu.
Markús Orri Óskarsson fékk trausta stöðu úr byrjuninni gegn öðrum rúmlega 2250 stig manni, að þessu sinni Nho Kiet Dinh frá Víetnam. Sá er með rúmlega 2800 stig á chess punkti com svo það komi fram! Markús fór í beinar aðgerðir aðeins of snemma og hleypti svörtu drottningunni inn í herbúðir sínar með peðsvinningi. Vörnin reyndist of erfið og þessi skák tapaðist.
Mikael Bjarki Heiðarsson hafði svart í ævintýraafbrigðinu gegn Caro Kan vörn. Ekki fóru ævintýri hvíts betur en svo, að meint sóknarfæri maltverjans Leonardo Zangrilli runnu í sand(rill)inn. Traust og góð taflmennska hjá Mikael Bjarka í þessari skák.
Matthías Björgvin Kjartansson nældi sér í biskupaparið í skák sinni gegn Kenýjabúanum Ruhan Dhruv Paresh Shah. Matthías setti mikla pressu á andstæðinginn í endataflinu, og náði að endingu að rýja Ruhan að skinni. Góð tækni!

Stúlknaflokkur U14
Guðrún Fanney Briem fékk á sig einhvers konar Philidor stöðu og var með meira rými. Andstæðingur hennar var Iris Ciarletta frá Frakklandi. Eftir taskísk mistök í miðtalfi vann svartur peð og svo annað, og byggði upp sigurstöðu. 19. Rh3 hefði verið sterkari leikur en 19. Hh3 og hvítur er með sóknarfæri á kóngsvæng.

Opinn U18
Opinn U16
Stúlkur U16
Opinn U14
Stúlkur U14
chess.com
chess24
Opinn flokkur U18 á chess-results
Opinn flokkur U16 á chess-results
Stúlknaflokkur U16 á chess-results
Opinn flokkur U14 á chess-results
Stúlknaflokkur U14 á chess-results