Mynd: Mark Livshitz

Íslenska liðið í opna flokknum á Evrópumóti landsliða í Svartfjallalandi náði ekki að fylgja eftir frábærum úrslitum sem náðust í gær gegn Magnus Carlsen og félögum í Noregi. Sterkir Ungverjar voru andstæðingar dagsins og varð liðið að sætta sig við tap með minnsta mun eftir æsispennandi viðureign þar sem jafnteflið var grátlega nálægt því að nást.

Kvennaliðið vann sinn fyrsta sigur en sigur vannst á Noregi 2,5-1,5, sömu tölur og hjá strákunum í opna flokknum í gær. Háspenna lífshætta var þar á ferðinni líka eins og hjá strákunum!

Opinn flokkur

Sterkt lið Ungverja eins og áður sagði, meðalstigin nálægt 2600 og þeir númer 12 í styrkleikaröðinni. Hjörvar mætti Viktor Erdös á efsta borði. Erdös var heimsmeistari 14 ára og yngri árið 2001 en hann er ekki eini heimsmeistarinn í hópi þeirra því Peter Acs liðsstjóri var heimsmeistari 20 ára og yngri á sínum tíma.

Hjörvar hafði hvítt og virtist Erdös koma honum á óvart í byrjuninni með hvassri taflmennsku. Hjörvar brást vel við en eyddi töluverðum tíma í að leysa vandamálin í stöðunni. Hjörvar fórnaði peði og fékk í staðinn hraðari liðsskipan og svartur var búinn að opna stöðu sína mikið með peðaframrásum sínum.

Staða Erdös með svarts reyndist erfitt að tefla og fljótlega fór hann að gefa eftir og Hjörvar vann peð og hafði stöðuna undir fullkomri stjórn. Allt virtist vera á réttri leið…

Hér lék Hjörvar 51.a4 en hefði átt að leika 51.Hh7 sem vinnur eiginlega „on the spot“ … Hjörvar sá þetta framhald en hætti við útaf einhverri blindu og lék a4 þess í stað. Staðan var eiginlega enn unnin þar til 56.Kb8? sem gaf svörtum jafnteflið.

Svekkjandi jafntefli þar sem sigurinn var í seilingarfjarlægð.

Hannes lenti í erfiðri vörn gegn Tamas Banusz. Vörnin virtist vera að ganga þegar Hannes var í hróksendatafli peði undir.

Hér lék Hannes 41…g4?? sem tapleikur. Hannes líklega verið aðeins of óþolinmóður að einfalda taflið. 41…f5 hefði verið betra og svartur ætti að halda jafnteflinu. Svartur fer með kónginn á h5 og er aktífur.

Vignir var að vanda traustur á þriðja borði. Andstæðingur hans tók greinilega nokkra áhættu í byrjanavali sínu og Vignir fekk klárlega betra tafl. Því miður náði hann ekki að nýta sér yfirburðina og Ungverjinn náði að halda velli.

Guðmundur gerði jafntefli í sinni skák. Gummi hafði svart og lenti í smá vörn í miðtaflinu sem kostaði peð. Okkar maður hélt góðri virkni í sinni stöðu og náði að halda jafntefli í hróksendatafli peði undir.

Svekkjandi 1,5-2,5 tap með minnsta mun. Sérstaklega svekkjandi vegna þess hversu nálægt Hjörvar var vinningnum.

Næst á dagskrá er lið Slóveníu sem er einnig fyrnasterkt og hefur borist liðsauki frá Rússlandi en Vladimir Fedoseev teflir með þeim.

Kvennaflokkur

Ísland fékk tækifæri á að „hreinsa“ Norðmenn en kvennaliðið mætti Noregi í dag eins og strákarnir í opna flokknum í gær. Úrslitin urðu hin sömu, 2,5-1,5.

Olga Prudnykova hafði svart á fyrsta borði gegn Olgu Dolgovu. Undirbúningurinn virtist ganga nokkuð vel upp og fékk okkar Olga betra tafl úr byrjuninni. Svartur hafði góða stjórn á stöðunni en þá komu mistök.

Hér fannst liðsstjóranum eðlilegast að leika 22…Bg5 og svo loka h-línunni ef með þarf með …h6. Þess í stað kom 22…Dg5? og eftir 23.Kf2 er svartur skyndilega í vandræðum á h-línunni. Hvítur fékk betra tafl en fékk einhverskonar skákblindu og skilaði öllu til baka.

26.c4?? er erfitt að útskýra. Peðið á g4 fellur bótalaus 26…Dg4 og svartur er kominn með hartnær unnið tafl. 26.Dh5 hefði haldið yfirburðatafli á hvítt.

Heppnina áttum við hinsvegar inni, sérstaklega eftir viðureignina við Ítaliu!

Næst að klára var Hallgerður á þriðja borði. Nimzo-indversk vörn varð fyrir valinu og aftur gekk undirbúningur mjög vel. Segja má að Hallgerður hafi eiginlega náð bestum undirbúningi hingað til, skákin gegn Sviss var líka mjög vel útfærð að því leiti. Í dag fékk hún fína stöðu og náði að vinna peð af andstæðingi sínum.

Hvítur náði að sprikla og setja Hallgerði í vandræði. Skákin þróaðist ekki ósvipað og skákin í 2. umferð. Ákveðin seinheppni og smá spurning um sjálfstraust. Hallgerður þarf að ná í sinn fyrsta sigur og þá brestur stíflan, mikil heppni sem við eigum inni þarna!

Staðan nú 1-1 en því miður blés ekki byrlega. Staða Liss leit ansi illa út og Lenka var kominn í strand í sinni skák og leit út fyrir jafntefli þar. Heilladísirnar hinsvegar komu okkur til bjargar í skákinni hjá Liss!

London byrjunin gekk ekki nógu vel og Kyrkjebo tvíburinn fékk mun betra tafl. Svartur hafði biskupaparið og gott miðborð.

Liss fékk fínan séns á að komast inn í skákina hér…hún lék 22.Rf5 en 22.Rc4! hefði snúið taflinu henni í vil. Sú norska vann peð og stóð líklega langleiðina til vinnings en var of fljót að skipta upp á drottningum.

44…b5?? var svo skelfilegur afleikur. Eftir 45.g3! mátti sjá andlit þeirrar norsku verða rauðara og rauðara meðan hún fattaði að hrókurinn væri ekki að fara neitt. Skemmtilegt þema sem „Skák-víkingurinn“ hefur tekið vel fyrir.

Á TikTok

@thechessviking

Tvo VITAL Patterns To SOLVE this TRICKY Puzzle – The Trapped Rook and the most important mutual zugzwang in pawn endgames #Chess #ChessTok #ChessEndgame #ChessTactics #ChessTikTok#ChessMaster #ChessViking

♬ original sound – The Chess Viking – The Chess Viking

Og á YouTube fyrir tíu árum!!

Fallegt að sjá mynstrin virka svona vel. Hrókurinn af og liðsstjórinn fór beint til skákstjóra og bað Lenku um að bjóða jafntefli….

Lenka tefldi af þunga og ábyrgð og tók aldrei of miklar áhættur. Þegar Liss sneri á sinn andstæðing var staða Lenku jafnteflisleg og því vildi ég fá jafnteflisboð í loftið áður en sú norska áttaði sig á því að 4. borðið væri með tapað tafl peði yfir. Hún fattaði það en staðan var það þurr að Lenka náði að stýra skákinni í öruggt jafntefli og loks var staðan endurtekin þrisvar.

Lokaniðurstaðan því 2,5-1,5 sigur. Næst á dagskrá er önnur Norðurlandaþjóð, Svíar. Svíarnir eru númer 25 í styrkleikaröðinni, aðeins fyrir ofan okkur en lið þeirra mjög dreift stigalega. Pia Cramling er auðvitað í sérflokki en á hinum borðunum tel ég íslenska liðið líklegra. Ætti að verða spennandi viðureign.

- Auglýsing -