Fidemeistarinn og Ísfirðingurinn Guðmundur Stefán Gíslason (2266) er genginn til liðs við TV. Þar er á ferðinni mikill reynslubolti en Guðmundur hefur átta sinnum teflt í Landsliðsflokki. Það er því ljóst að Guðmundur mun styrkja lið TV mikið í komandi átökum úrvalsdeildarinnar.

Guðmundur hefur m.a. unnið Viktor Korchnoi á ferlinum en sá gekk undir nafninu Victor the terrible, eða Viktor hinn grimmi. Hér má sjá þá skák.

Guðmundur komst þó rækilega í skáksögubækurnar með því að vinna Skákþing Reykjavíkur árið 1993 en þá vann hann það einstæða afrek að vinna allar skákirnar í 11 umferðum og hefur það afrek aldrei verið leikið eftir.

Guðmundur lætur ekki landfræðilegar hindranir koma í veg fyrir að hann tefli en hann býr og starfar sem verkstjóri í hraðfrystihúsi Gunnvarar í Hnífsdal. Fyrir nokkrum árum tók hann þátt í skákmótum í Reykjavík þar sem tefldar voru þrjár umferðir á viku. Guðmundur lét það ekki halda aftur af sér og keyrði stundum þrisvar sinnum í viku suður til að tefla í þessum mótum og svo tilbaka vestur og var hann þó í fullri vinnu að auki.

Sjá frétt um þetta: https://www.dv.is/frettir/2017/01/23/mer-finnst-bara-ofbodslega-skemmtilegt-ad-tefla/

- Auglýsing -