Skákþing Íslands – Íslandsmótið í skák hófst í dag en teflt er í Mosfellsbæ að þessu sinni. Óhætt er að segja að mótið hafi byrjað með látum, fjórar sigurskákir, óvænt úrslit og flott taflmennska

Fyrirfram leit út fyrir að skák Guðmundar Kjartanssonar með hvítt gegn Héðni Steingrímssyni væri ein mikilvægasta skák umferðarinnar. Báðir með stigahæstu mönnum og líklegir til afreka ef tekið er mið að Reykjavíkurskákmótinu þar sem báðir stóðu sig vel.

Guðmundur virtist fá eitthvað betra út úr byrjuninni en náði ekki að gera sér mat úr því. Héðinn jafnaði taflið nokkuð auðveldlega og endurtóku þeir sömu stöðuna þrisvar sinnum og jafntefli var samið.

Vignir Vatnar hóf titilvörnina á miklum seiglusigri í endtafli. Vignir náði í ófá punktana á síðasta móti á viðlíka hátt…eftirminnilegur er t.d. svíðingur gegn Lenku í athyglisverðu endatafli. Aleksandr virtist vera að verjast vel lengst af skákar en Vignir náði að kreysta fram vinning í biskupaendatafli þar sem hann hafði meira rými og svörtu peðin voru skotmörk.  Alvöru stórmeistarabragur á þessari skák hjá Vigni og titilvörnin hefst vel.

Helgi Áss Grétarsson er mikill keppnismaður og til alls líklegur þegar hann kemst í gang. Hann byrjaði mótið á góðum sigri með svörtu gegn Bárði Erni Birkissyni. Bárður hefur teflt vel undanfarin misseri og ekki auðvelt að leggja hann með svörtu. Helgi beitti Pirc vörn og náði góðum færum úr byrjuninni. Helgi fékk betri peðastöðu og vann svo peð sem hann náði að hanga á og kláraði svo með smekklegri taktík í lokin.

Lenka Ptacnikova kom inn í mótið með stuttum fyrirvara í gær eftir að Bragi Þorfinnsson þurfti að draga sig úr leik. Lenka var ekki með neina væmni gegn Hannesi og fórnaði peði og svo öðru og loks skiptamun. Hannes stóð af sér pressuna og kláraði með snotri fléttu.

30…Hxa7! 31.Dxa7 Db3 og hvítur er varnarlaus, Bb4+ er hótunin og svöru mennirnir of virkir.

Alþjóðlegu meistararnir ungu Dagur Ragnarsson og Hilmir Freyr tefldu langa baráttuskák. Báðir voru vel undirbúnir fyrir langa teóríu í slavneskri vörn. Dagur hélt líklegast alltaf aðeins betri stöðu en Hilmir var alltaf að hóta dýnamískum aðgerðum og Dagur náði ekki að finna leið til að þróa stöðu sína frekar í endataflinu. Jafntefli varð niðurstaðan.

Óvæntustu úrslit umferðinnar komu klárlega í skák Hjörvars og Olgu. Olga beitti Najdorf afbrigði sikileyjarvarnar. Skák þeirra var dýnamísk og skemmtileg. Olga gaf ekkert eftir og Hjörvar þurfti að hafa mikið fyrir skákinni…enda komust þau bæði í tímahrak.

Olga gaf loks eftir með 30…dxe2? í tímahraki en 30…Hc2 heldur lífi í mjög athyglisverðri skák! Hjörvar virtist loks vera að ná fullri stjórn á stöðunni þegar hann steingleymdi sér í 33. leik og féll á tíma. Klaufalegt tap í annars skemmtilegri skák.

Útsending 1. umferðar

Mótið heldur áfram á morgun með 2. umferð sem hefst eins og allar klukkan 15:00

 

- Auglýsing -