Mjög stórt opið mót, Benasque Open hófst í dag á Spáni. Hvorki fleiri né færri en 502 skákmenn eru skráðir til leiks, yfir 20 stórmeistarar og fjöldi titilhafa. Þeir bræður Adam og Josef Omarssynir eru mættir til leiks á mótið.
Í fyrstu umferð mætti Adam spænska alþjóðlega meistaranum Pablo Glavina (2399). Sá spænski hokinn af reynslu fékk upp móttekið drottningarbragð og missti Adam þráðinn nokkuð snemma og laut í dúk.
Josef fékk svart á heimamanninn FM Javier Habans Aguerrera (2408) sem er aðeins 16 ára. Josef varðist vel en þó í passífri stöðu og í tímahraki komst FIDE meistarinn ungi í gegn.
Leikur Þjóðverja og Spánverja var sýndur á skjá meðan á umferðinni stóð og voru mikil fagnaðarlæti á staðnum og skemmtileg stemmning! Eftir leikinn var svo sungið og trallað á götum úti!
Við fylgjumst með bræðrunum eins og hægt er, mikið skáksumar í gangi hjá Íslendingum nú í júlí!