Að baki er frábær dagur í Kraká í Póllandi þar sem íslenska liðið er efst á HM öldungasveita (50+) eftir ótrúlegan 4-0 sigur á sveit Kanada. Fyrstu fréttir úr beinum útsendingum bentu til þess að úrslit hefðu farið á besta veg og England-2 hefði náð 2-2 gegn Bandaríkjunum en því miður voru gerð mistök í beinum útsendingum og þessi mistök ekki leiðrétt fyrr en löngu síðar eftir það sem gárunganir kalla „dindla-dinner“. Bandaríkin unnu sína viðureign 3-1 eftir að mistökin voru leiðrétt og framundan er því uppgjör við Bandaríkin þar sem sjálfur Heimsmeistaratitilinn er líklegast undir!

Allir liðsmenn höfðu hvílt jafnt í fyrstu fimm umferðunum og að þessu sinni var ákveðið að Jón L. myndi hvíla enda tvær langar og orkufrekar skákir að baki hjá  honum. Kanadamenn voru nálægt jafntefli við bandarísku sveitinni og kláralega hættulega sveit.

Á efsta borði hafði alþjóðlegi meistarinn Viktor Plotkin hvítt gegn Helga. Viktor elti strax svartreitabiskup Helga og náði biskupaparinu tímabundið. Eftir það tók við kennslustund sem Skak.is veit ekki til þess að Helgi hafi rukkað Kanadamanninn sérstaklega fyrir. Helgi byrjaði á að slökkva á biskupaparinu og setti svo lævísa gildru í 18. leik með 18…De6!? Viktor kolféll í hana með 19.g4?

Kanadíski alþjóðlegi meistarinn missti algjörlega af lúmskri hótun Helga, 19…Ha4! og svartur vinnur peð! Restin af skákinni var nánast „rað-tækni“ fyrir Helga og þar eru fáir í heiminum framar „Veggnum“ þegar kemur að þeim málum. Ef menn vilja læra meira um raðtækni hvet ég menn til að kynna sér skákina Nogueiras-H.Olafsson!

Veggurinn er í stuði á HM!

Þegar Helgi vann voru íslensku stöðurnar almennt heilbrigðar en kannski enginn sem stóð til vinnings….það breyttist fljótt!

Jóhann var alltaf með örlítið betra en aldrei nóg til að andstæðingur hans væri í vandræðum. Undir lok tímamarkanna náði Jóhann hinsvegar loks að búa til vandamál sem andstæðingur hans hreinlega réði ekki við!

Á svipuðum tíma og Jóhann var að snúa á sinn andstæðing sýndi Þröstur andstæðingi sínum muninn á stórmeistara og titilhafa. Þröstur hafði einfaldlega aðeins betri tilfinningu fyrir stöðunni og staðsetningu mannanna. Það munaði ekki miklu en á réttum tíma í tímahrakinu tók Þröstur yfir skákina og knésetti andstæðing sinn.

Staðan því orðin 3-0 sem var alls ekki það sem stefndi í. Staða Margeirs á þessum tímapunkti var steindautt hróksendatafl. Skyndilega lék Margeir tapleik 55…Hf1?? þar sem 56.Kb5 vinnur!

Þess í stað kom 56.a6?? og staðan er aftur jafntefli! Matið hélst jafnt þar til…

Hvítur fékk val milli 69.Kd6! sem vinnur eða 69.Kd7?? sem hann valdi! Ákveðinn tröllgrís sem við þáðum eftir 69…Hc7+ og svartur vinnur! Óskiljanlegt hjá Kanadamanninum sem hafði nægan tíma til að panta Domínós pizzu með 30-mínútna tryggingu frá aldamótum en lék þess í stað af sér skákinni!

Magnaður 4-0 sigur sem hjálpar heilmikið út af borðavinningum!

Ef íslenska sveitin nær að standa af sér áhlaup Bandaríkjamanna er sveitin í algjörri oddastöðu að ná í Heimsmeistaratitilinn. Í fyrsta lagi verða Ítalir að leggja Englendinga með Michael Adams að velli og í öðru lagi að vinna svo upp muninn á borðavinningum. Þar sem efstu sveitr hafa allar mæst þá gæti Bandaríkjamönnum að sama skapi nægt að leggja Íslendinga að velli.

Framundan er frídagur og Íslendingar og Bandaríkjamenn búa sig undir úrslitaviðureign. Íslendingar hafa í raun fengið óvæntan ás upp í ermina þar sem Alexander Yermolinsky hefur ekki náð að tefla með bandarísku sveitinni í síðustu umferðum og nær líklega ekki að koma til móts við sveitina aftur á þessu móti. Það þýðir að íslenska sveitin á að geta hagað seglum eftir vindi á meðan að bandaríska sveitin þarf að bíða og sjá hvaða vindátt verður í boði þegar liðsskipan sveitanna verður tilkynnt á þriðjudaginn!

Mynd: Mark Livshitz

Íslenska sveitin á mótinu er sterk sem endranær. Liðið skipa í borðaröð:

  1. Helgi Ólafsson
  2. Jóhann Hjartarson
  3. Margeir Pétursson
  4. Jón L. Árnason
  5. Þröstur Þórhallsson

Íslenka liðið teflir í flokki 50+ þar sem tefldar verða 9 umferðir. Alls taka 31 sveit þátt í 50+ flokknum og er Ísland (2439) númer þrjú í styrkleikaröð á eftir feykisterkri sveit Bandaríkjamanna (2480) og Evrópumeistara Englendinga (2469). Skammt á hæla Íslendinga kemur sveit Ítala (2431) sem er svipuð að stigum og sú íslenska og hefur oft reynst okkur erfið. Þessar fjórar sveitir eiga að vera í nokkrum sérflokki á þessu móti!

- Auglýsing -