Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson heldur áfram góðu gengi sínu á Maplewood Chess Club Invitational, sterku lokuðu móti í Kanada. Vignir gerði tvö traust jafntefli á tvöföldum degi í dag og er enn taplaus eftir 8 umferðir af 9 og situr jafn Aryan Tari í öðru sæti á eftir Jorden van Foreest sem hefur þegar tryggt sér sigur á mótinu.
Í fyrri umferð dagsins, þeirri sjöundu, hafði Vignir svart gegn heimamanninum og stórmeistaranum Shawn Rodrigue-Lemieux (2499). Vignir hafði svart og upp kom sikileyjarvörn, nánar tiltekið Rauzer afbrigðið svokallaða. Fylgdu þeir teoríu sem mætti kalla aðalafbrigðið í dag og Vignir virtist hafa sitt á hreinu.
Vignir með svart var nokkrum peðum undir í endatafli en með bullandi spil og virka menn. Staðan virtist nokkuð þekkt fyrir báða og sást það kannski hvað best á því að hvorugur fór undir klukkustund á klukkunni fyrr en staðan var í raun byrjuð að endurtaka sig þrisvar sinnum.
Nokkuð öruggt jafntefli með svörtu hjá Vigni og greinilega skilaði sér að hafa fræðin á hreinu!
Mögulega var ansi gott að klára snemma í fyrri umferðinni. Vignir hafði þá meiri tíma til að undirbúa sig fyrir skák sína gegn ofurstórmeistaranum Jorden van Foreest. Jorden er næststigahæsti skákmaður Hollendinga og hefur afrekað það að vinna Wijk aan Zee mótið sem er gríðarleg rós í hnappagat hvaða skákmanns sem er!
Vignir hafði hvítt og var ekkert að rugga neinum bátum. Upp kom ítalski leikurinn og Vignir tefldi einfaldlega af öryggi með hvítu og skákin fór aldrei í nein ferðalög og ljóst var að jafntefli voru og urðu líklegustu úrslitin. Traust hjá Vigni!
Vignir er í öðru sæti ásamt Aryan Tari með 5,5 vinning af 8 fyrir lokaumferðina en hvorugur getur náð van Foreest sem hefur 7 vinninga. Í lokaumferðinni fær Vignir þó ansi þungt verkefni en hann fær þar svart gegn Ivan Saric, sterkasta skákmanni Króata. Ivan hefur lagt Carlsen að velli í kappskák og er gríðarlega sterkur og reyndur skákmaður. Takist Vigni að loka þessu móti taplaust verður það að teljast gríðarlega góður árangur! Sama hvernig fer í lokaumferðinni þá er Vignir öruggur með stigagróða á mótinu, spurningin er einungis hversu mikinn!
- Í beinni á lichess.org
- Chess-results