Þrír Íslendingar taka nú þátt á Czech Open í Pardubice í Tékklandi. Í ár teflir Lenka Ptacnikova í A-flokki en synir hennar Josef og Adam Omarssynir tefla í B-flokki.
Adam var taplaus í B-flokknum eftir fimm umferðir en varð að sætta sig við sitt fyrsta tap í sjöttu umferð. Lenka gerði jafntefli í sinni skák í A-flokki eins og Josef í sinni skák í B-flokki.
Adam var taplaus fyrir umferðina en varð loks að sætta sig við tap í sjöttu umferð þegar hann mætti pólska skákmanninum Ryszard Cwiek (1991). Þrátt fyrir að stýra hvítu mönnunum varð Adam að lúta í dúk.
Josef hafði svart gegn heimamanninum Adam Svanda (2030) í sama flokki. Adam hélt jafntefli með svörtu mönnunum.
Josef hefur nú 4 vinninga af 6 í B-flokknum en Adam er með 3,5 af 6.
Lenka stýrði hvítu mönnunum gegn Ahmed Saif (2009) frá Furstadæmunum. Skákin endaði með jafntefli. Lenka hefur nú 2,5 vinning af 6 mögulegum.
Á morgun í sjöundu umferð teflir Lenka upp fyrir sig með svörtu gegn Dominik Kula (2239). Sömu sögu er að segja af Josef í B-flokki sem hefur hvítt gegn heimamanninum Jan Cesenek (2016). Adam teflir niður fyrir sig og mætir Ajitesh Nallapareddygari (1730) en hann hefur getið sér gott orð á stafsetningartúrnum (e. Spelling Bee) í Bandaríkjunum!