Hilmir tekur við verðlaunagripnum sem Unglingameistari Íslands 2022

Íslenski landsliðsmaðurinn Hilmir Freyr Heimisson stendur í ströngu á opnu móti í Danmörku, OBRO international sem fer fram í Kaupmannahöfn frá 22-28. júli. Alls eru 54 keppendur sem tefla 9 umferðir og er Hilmir númer 8 í stigaröðinni. Fimm stórmeistarar eru skráðir til leiks.

Í skák dagsins hafði Hilmir hvítt gegn Gergely Aczel (2498) sem er ungverskur stórmeistari og stigahæsti keppandi mótsins. Upp kom caro-kann vörn og notaði Hilmir hinn svokallaða fantasíu-varíant (e. Fantasy variation).

Miðtaflið var lengst í jafnvægi en líkt og í skák gærdagsins virtist Hilmir aðeins missa tökin, gefur peð en fær aftur frelsingja á e-línunni líkt og í skákinni í gær. Hilmir náði að rétta tökin í endataflinu og kom eilítið á óvart að stigahæsti keppandinn skildi ekki fylgja „bókinni“ betur.

32…He5? virtist gefa hvítum jafnteflið. Flestir eiga nú að vita að hrókar „eiga heima“ fyrir aftan frípeð en einhverja hluta vegna hugnaðist Ungverjanum ekki að leika 32…Hf8 hér sem gefur svörtu einhverja vinningsmöguleika.

Hilmir hefur 5 vinninga af 8 eftir umferð dagsins og framundan er lokaumferðin á morgun.

- Auglýsing -