Stærsta verkefni íslenskra skákmanna á þessu ári má án efa telja Ólympíuskákmótið í Búdapest sem hefst 10. september nk. Liðsmenn Íslands sem tefla í opnum flokki mótsins hafa margir hverjir verið að undirbúa þátttöku sína með þátttöku á mótum víða um Evrópu. Af þeim hafa þeir Vignir Vatnar Stefánsson og Hilmir Freyr Heimisson verið einna iðnastir við kolann og Helgi Áss Grétarsson hefur nýverið lokið þátttöku á tveimur mótum í Tékklandi og Slóvakíu. Hjörvar Steinn Grétarsson mun taka þátt í Norðurlandamóti einstaklinga sem fram fer af kappi með þátttöku víða um Evrópu og hefst í byrjun ágúst.
Vignir Vatnar vann yfirburðasigur í stórmeistaraflokki B á skákhátíðinni Cecke Budjovice í Tékklandi, sem lauk í byrjun júlí, hlaut 7½ vinning af 9 mögulegum. Hann tekur þessa dagana þátt í sterku 10 manna móti í Kanada og teflir síðan á öðru opnu móti þar um slóðir.
Það er lítið mál nú til dags að renna yfir skákir hvort heldur sem er í beinni útsendingu eða síðar. Eftirfarandi skák frá Ceske Budjovice er athyglisverð fyrir margra hluta sakir því að baráttan í miðtaflinu átti sér lengst af stað í jafnri stöðu og um tíma virtist Vignir vera með heldur lakara. Sjálfstraustið var hins vegar í góðu lagi og hann hélt vinningsmöguleikum sínum vakandi. Þar kom að mótstöðumaðurinn missti tökin í flókinni stöðu:
Cecke Budjovice 2024; 3. umferð:
Vignir Vatnar Stefánsson – Jari Reyker
Drottningarbragð
1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 d5 4. Rc3 Bb4 5. Bg5 h6 6. Bxf6 Dxf6 7. e3 0-0 8. Hc1 dxc4 9. Bxc4 c5 10. 0-0 cxd4 11. Re4 De7 12. a3 Ba5 13. exd4 Hd8 14. Hc2!?
Dálítið dularfullur leikur runninn undan rifjum Anish Giri sem gegn Gukesh í Wijk aan Zee 2023 setti af stað „vélknúna“ hernaðaráætlun sem Indverjinn réð ekki við: 14. … Bd7 15. He2 Bc6 16. Dc2 Bb6 17. Hfe1 Kh8 18. Reg5! og þessi staða er unnin á hvítt!
14. … Bb6 15. He1 Ra6 16. Hd2 Rc7 17. Re5 Bd7 18. Rc5 Bxc5 19. dxc5 Bc6 20. Hd6
Sjá stöðumynd 1
Þetta lítur ógnandi út en Jari Reyker er vandanum vaxinn.
20. … Bd5 21. Bxd5 Rxd5 22. Rc4 Dc7 23. Dd4 b6 24. b4 bxc5 25. bxc5 Hdc8 26. Hc1
Sjá stöðumynd 2
Valdar c5-peðið óbeint því að 26. … Dxc5 yrði svarað með 27. Hd8+! og svartur gæti gefist upp. Hér er best að leika 26. … Hab8 og svarta staðan er heldur betri.
26. … Re7 27. Re3 Da5 28. Hd7 Rc6 29. Df4 Hf8 30. a4 Hab8 31. De4 Hfc8 32. Df4 Hf8 33. h3 Hb4 34. Dd6 Dxa4 35. Hd1 He4 36. Kh2 a5 37. Hc7 Rd4 38. c6 g6 39. Dc5 h5 40. Hd3 Hd8?
Tapleikurinn. Hann gengur sjálfviljugur inn í leppun og það kann ekki góðri lukku að stýra. Mun betra var 40. … Db4 og svarta staðan er heldur betri.
41. Ha3 Db4 42. Hxa5 De1 43. De7! Dxf2
¶44. Hf5!
Hnitmiðaður lokaleikur. Svartur gafst upp.
FIDE 100 ára – hraðskákmót á Ingólfstorgi
Í dag eru liðin nákvæmlega 100 ár síðan Alþjóðaskáksambandið, FIDE, var stofnað en það gerðist í París 20. júlí 1924. Í tilefni þessara tímamóta efnir Skáksamband Íslands til hraðskákmóts á Ingólfstorgi í Reykjavík og fer það fram samtímis ýmsum öðrum viðburðum sem aðildarsambönd FIDE standa fyrir víða um heim. Markmiðið er að ná slíkum fjölda þátttakenda að heimsmet verði sett. Mótið á Ingólfstorgi hefst kl. 13 í dag.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 20. júlí 2024