
Indverjar unnu glæsilega sigra í opnum flokki og kvennaflokki ólympíumótsins sem lauk í Búdapest í Ungverjalandi um síðustu helgi. Yfirburðir liðsins í opna flokkum voru slíkir að telja verður nær óhugsandi að nokkur skáksveit muni gera betur í framtíðinni. Indverjar hlutu 21 stig af 22 mögulegum, ein skák tapaðist. Það var frammistaða fyrsta og þriðja borðs manna þeirra sem gerði útslagið; Dommarju Gukesh hlaut 9 vinninga af 10 mögulegum og Arjun Erigaisi 10 vinninga af 11 mögulegum. Sveitin hlaut 35 vinninga af 44 mögulegum, Bandaríkjamenn hlutu silfur með 29½ vinning og 17 stig, jafnir Úsbekum en með betri stigatölu. Í kvennaflokknum unnu Indverjar með 19 stig, Kasakar urðu í öðru sæti og Bandaríkjamenn í því þriðja.
Frammistaða íslenska liðsins í opna flokknum var undir væntingum, sveitin hlaut 12 stig og 24½ vinning af 44 mögulegum og varð í 68. sæti af 188 þátttökuliðum. Árangur liðsins með svörtu, 14 vinningar úr 22 skákum, var viðunandi en það vantaði talsvert upp á öryggið og 1. borðs maðurinn Vignir Vatnar Stefánsson var langt frá sínu besta með 3½ vinning af 9. Tveir þrautreyndir, Hannes Hlífar Stefánsson og Helgi Áss Grétarsson, stóðu sig best. Hannes Hlífar hlaut 6½ v. af 9 mögulegum og Helgi Áss var með 5½ v. af 9, Guðmundur Kjartansson var með 50% árangur á 2. borði í 9 skákum og Hilmir Freyr Heimisson hlaut 4½ v. af 8 mögulegum á 4. borði.
Íslenska liðið sem tefldi í kvennaflokknum getur vel við sinn árangur unað með tvo nýliða innanborðs. Liðið fékk 12 stig og hlaut 25½ vinning af 44 mögulegum og hafnaði í 58. sæti af 169 þátttökuliðum
Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, sem tefldi á 3. borði, náði sínum besta árangri á ólympíumóti, hlaut 7 vinninga af 10 mögulegum. Lenka Ptacnikova á 1. borði hlaut 6 v. af 10, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir á 2. borði var með 5 v. af 9, Iðunn Helgadóttir hlaut 5 v. af 9 á 4. borði og Guðrún Fanney Briem, sem tók sæti varamanns, hlaut 2½ v. af 6.
Hannes Hlífar tefldi nú á sínu sextánda ólympíumóti. Lítum á stutta en snaggaralega sigurskák hans frá viðureign Íslands og Túrkmenistans:
ÓL 2024 í Búdapest, opinn flokkur, 8. umferð:
Amanmuhammet Hommadov – Hannes Hlífar Stefánsson
Spænskur leikur
1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. 0-0 Bc5
Eitt af fjölmörgum afbrigðum spænska leiksins. Teflanlegt en býsna flókið. Hannes var vel undirbúinn.
6. Rxe5!? Rxe5 7. d4 b5 8. Bb3 Bxd4 9. Dxd4 d6 10. c3
Hér er hvassara að leika 10. f4.
10. … c5 11. Dd1 0-0 12. He1 Bb7 13. Bc2 He8 14. Bf4 d5!?
„Vélarnar“ mæla með 14. … Rg6! og telja stöðu svarts talsvert betri. En leikur Hannesar er eðlilegur og byggist m.a. á gildru sem andstæðingurinn áttar sig ekki á fyrr en um seinan!
15. exd5?
Hann varð að leika 15. Bxe5 Hxe5 16. f4 He8 17. e5 Re4 og staðan er jöfn.
15. … Dxd5
Nú sá Hommadov að 16. Dxd5 strandar á banvænum millileik, 16. … Rf3+!, sem vinnur strax.
16. f3 Rxf3+! 17. gxf3 Hxe1+ 18. Dxe1 Dxf3 19. Dg3 Dh1+ 20. Kf2 He8! 21. Be3
Nú blasir við að svartur á 21. … Rg4+! 22. Dxg4 Dxh2+ 23. Kf1 Hxe3 og hvítur getur gefið. En Hannes fann annan leik ögn hógværari sem einnig vinnur.
21. … h5 22. Bf5 Be4! 23. Bh6 g6 24. Rd2 Dxa1
– og hvítur gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 28. september 2024