Íslensku liðin sem tefla á Ólympíumótinu í Búdapest hafa átt misjöfnu gengi að fagna. Kvennaliðið hefur náð mörgum góðum úrslitum einkum þó Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, sem byrjaði með 5 vinninga úr fyrstu sex skákum sínum. Og nýliðarnir Iðunn Helgadóttir og Guðrún Fanney Briem ætla báðar að komast vel frá sínu fyrsta ólympíumóti. Í opna flokknum hefur liðið ekki náð sér á strik eftir góða byrjun. Greinileg þreytumerki hafa verið á taflmennsku 1. borðs mannsins, Vignis Vatnars, þó að vissulega sé við ramman reip að draga í hverri einustu umferð. Mótið er enda geysilega sterkt og nær allir bestu skákmenn heims mættir til leiks.
Stóra fréttin frá Búdapest varðar uppgang Indverja, sem eru bókstaflega að rusla upp ólympíumótinu. Í fyrsta sinn í sögu þess má jafnvel búast við því að ólympíumeistararnir vinni allar sínar viðureignir. Þegar þetta er ritað eru Indverjar með 16 stig af 16 mögulegum og hafa hlotið 27 vinninga af 32 mögulegum. Þá eru líkur til þess að í fyrsta sinn í 50 ár komist sigurlið í gegnum heilt ólympíumót án þess að tapa einni einustu skák. Dommarju Gukesh sem teflir á 1. borði hefur hlotið 6½ v. af 7 mögulegum og Arjun Ergiasi er með 7½ af átta mögulegum. En þrátt fyrir þessa yfirburðastöðu getur margt gerst á lokasprettinum; Indverjar áttu í gær að tefla við sigurvegarana frá síðasta ólympíumóti sem fram fór í Chennai í Indlandi 2022, Úsbeka. Þar er á ferðinni langerfiðasta hindrunin. Fyrir lá að með sigri gátu Úsbekar náð Indverjum.
Snúum okkur þá að íslensku liðunum. Eftir tap fyrir Indverjum í 2. umferð tók við góður sprettur, þrír sigrar í röð og við vorum með 8 stig af 10 mögulegum. Sætur sigur vannst á Búlgörum í 5. umferð er þeir Guðmundur Kjartansson og Helgi Áss Grétarsson unnu báðir með svörtu í viðureigninni við hina öflugu sveit Búlgaríu. Sigur þess fyrrnefnda var einkar sannfærandi:
Ólympíumótið í Búdapest 2024; 5. umferð:
Arkady Naiditch – Guðmundur Kjartansson
Kóngsindversk vörn
1. Rf3 Rf6 2. g3 g6 3. c4 c6 4. b3 Bg7 5. Bb2 d6 6. Bg2 e5 7. d3 Rbd7 8. O-O O-O 9. Rc3 He8 10. Dc2 a6 11. Hac1 Hb8 12. Re4
Það er eins hvítur sé að tefla án nokkurrar áætlunar. Svartur hefur jafnað taflið án nokkurra erfiðleika.
12. … Rxe4 13. dxe4 a5 14. Bh3 Rc5 15. Bxc8 Dxc8 16. Ba3 b6 17. Hcd1 Bf8 18. e3
18. … Dh3!?
Guðmundur taldi eftir skákina að þessi leikur hefði ráðið mestu um úrslitin. Á h3 kemur drottningin í veg fyrir að kóngurinn komist til g2 og við það opnast möguleikar á að fylkja peðunum fram.
19. Rd2 h5 20. Rb1 h4 21. Rc3 Be7 22. De2 hxg3 23. fxg3 Kg7 24. Df3 f6 25. Hf2 Hbd8 26. Hdd2 Hh8
Enn betra var 26. … Re6!
27. Dd1 Dh5 28. h4?
Óþarfa veiking. Hann hefði átt að fara í drottningakaup og staðan er jöfn.
28. … Kf7 29. Hf3 Ke6!
Frábær staðsetning kóngsins. Svartur hyggst leika f6-f5 og hvítur er þegar i vandræðum.
30. Bxc5 bxc5 31. Hh2 Hdf8 32. Df1 f5 33. Hhf2 Dg4! 34. Dg2 Kd7 35. Kh2?
Það var erfitt að finna leik en þessi bætir ekki úr skák.
35. … g5!
Svartur stendur til vinnings.
36. Hxf5 gxh4 37. Kg1 hxg3 38. H2f3 Hfg8 39. Hf7 Hh2 40. Dxg3
40. … Hc2!
Annar góður leikur var 40. … Dh3! en þessi dugði líka. Naiditsch gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 21. september 2024