Keppni á Czech Open í Pardubice í Tékklandi lauk um helgina. Lenka Ptacnikova tefldi í A-flokki en synir hennar Josef og Adam Omarssynir tefldu í B-flokki.

Síðustu umferðirnar gengu ekkert sérstaklega nema hjá Adam. Lenka kláraði á tveimur jafnteflum og tapi í A-flokki. Jafnteflin voru gegn Dominik Kula (2239) og Antoni Dylong (2031) en tap kom í lokaumferðinni gegn S-afrísku landsliðskonunni Chloe Badenhorst (1902).

Lenka endaði með 3,5 vinning í A-flokki og tapar 28 elóstigum.

Josef hafði byrjað nokkuð vel í B-flokki og hafði 4 vinninga af 6 en endaspretturinn reyndist þungur. Tap í 7. umferð gegn Jan Cesenek (2016) var fylgt eftir með jafntefli í 8. umferð gegn Martin Schmidt (2047). Í lokaumferðinni kom svo tap gegn Itay Bezrodny (1793).

Lokaniðurstaðan hjá Josef í B-flokki var því 4,5 vinningur og 15 stig töpuðust og réði þar lokaumferðin mestu en fyrir hana var Josef í stigagróða.

Adam kom best út úr mótinu stigalega og hann endaði einnig vel. Hann hafði 3,5 vinning eftir 6 umferðir og vann í 7. umferð gegn Bandaríkjamanninum Ajitesh Nallapareddygari (1730). Tvö jafntefli fylgdu í lokaumferðunum, fyrst gegn Maros Laho (2074) og hið seinna gegn Michal Stejskal (1964).

Adam endaði með 5,5 vinning og bætir við sig rétt rúmum 68 elóstigum!

- Auglýsing -