Vignir Vatnar Stefánsson (2500) gerði jafntefli í áttundu og næstsíðustu umferð á Leca Chess Open sem er opið mót í Portúgal. Vignir er eftir þessi úrslit í skiptu efsta sæti ásamt A.Kovchan þar sem aðrar skákir við toppinn enduðu einnig með jafntefli.
Vignir stýrði hvítu mönnunum og upp kom Grunfeldsvörn. Vignir skipti snemma upp á drottningum en fékk kannski úr litlu að moða. Svartur var mögulega með örlítið betra í hróksendataflinu og hefði alveg getað reynt eitthvað en virðist hafa boðið jafntefli eftir …c6 sem Vignir þáði.
Benedikt var einnig í beinni. Hann mætti Mobinu Alinasab sem Vignir hafði lagt að velli fyrr á mótinu. Skákin varð löng og ströng barátta í Catalan þar sem hvítur var að berjast við að ná peði til baka sem hann fórnaði í byrjuninni. Það gekk og Benedikt á köflum með mjög fína sénsa. Hann missti skákina niður í endatafl sem ætti að vera jafntefli en missti þar þráðinn og endaði á að tapa skákinni.
Theodór og Eiríkur töpuðu sínum skákum í umferðinni.
Vignir hefur nú 6,5 vinninga og er enn jafn A.Kovchan á toppnum. Benedikt hefur 4,5 vinning, Theodór 3,5 vinning og Eiríkur hefur 3 vinninga.
Vignir hefur svart gegn Yevgeniy Roshka í síðustu umferðinni en Kovchan hefur hvítt þannig að líkurnar liggja örlítið hjá Úkraínu manninum.
Vignir er númer 3 í stigaröð á þessu 209 manna skákmóti. Auk Vignis eru með í för þeir Benedikt Briem (2148), Theodór Eiríksson (1638) og Eiríkur Orri Guðmundsson (1517). Vignir hafði 6 vinninga eftir fyrstu sjö umferðirnar og honumst næstur var Benedikt með 4,5 vinning.