Lokaumferðin var tefld í dag á Spilimbergo Open, opnu móti á Ítalíu í samnefndum bæ þar sem þeir Helgi Áss Grétarsson og Aleksandr Domalchuk-Jonasson tefldu. Í lokaumferðinni náði Aleksandr í sigur en Helgi samdi stutt.
Andstæðingur Helga Bersultan Moldagali (2331) tefldi þurrt með hvítu, leiðinlegt afbrigði og bauð snemma jafntefli. Helgi ákvað að friðarpípa væri skynsamleg í þessu tilviki og tók boðinu.
Skák Aleksandrs með hvítt gegn heimamanninn Massimiliano Botta (2190) varð líflegri. Ítalinn valdi kóngsindverska vörn og fór í furðulegt ferðalag með drottningarriddarann sinn og komst upp með það. Fljótlega í miðtaflinu tók Aleksandr þó til við að yfirspila andstæðing sinn og kláraði dæmið laglega í lokin.
Helgi endaði því 6 vinninga en Aleksandr með 5,5 vinning. Þeir lækka báðir lítillega á stigum.
Spilimbergo Open var 9 umferða opið mót sem fram fæir í ítalska bænum Spilimbergo frá 9-15. ágúst. Mótið var fyrir skákmenn yfir 2000 elóstigum með yfir 150 þátttakendum. Belginn Daniel Dardha var stigahæstur keppenda og meðal þátttakenda var YouTube-stjarnan Levy Rozman sem eltist nú við stórmeistaratitilinn. Helgi Áss var númer 12 í stigaröðinni og Aleksandr var númer 30.