Kristján Örn Elíasson hefur um margra mánaða skeið stjórnað, ákaflega vel heppnuðum, vikulegum útvarpsþáttum, á miðvikudögum, á Útvarpi Sögu – sem heita; Við skákborðið.

Í gær mættu Guðmundur G., Einar Ess og Hilmar  í Skipholtið. Í kynningu um þáttinn segir:

Gestir þáttarins að þessu sinnu eru þeir Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, Einar S. Einarsson fyrrverandi forstjóri VISA á Íslandi og Hilmar Viggósson fyrrverandi bankaútibússtjóri. Guðmundur og Einar eru báðir fyrrverandi forsetar Skáksambands Íslands og Hilmar er fyrrverandi gjaldkeri sambandsins en þeir Guðmundur og Hilmar voru við stjórnvölinn þegar „Einvígi aldarinnar“ fór fram í Laugardalshöll árið 1972 á milli þáverandi heimsmeistara í skák, Sovétsmannsins Boris Spasskys og Bandaríkjamannsins Roberts Fischers.

Eins og flestir vita sem fylgjast með skák veitti Alþingi Fischer íslenskan ríkisborgararétt þann 21. mars árið 2005. Hann lést í Reykjavík 17. janúar 2008 eftir baráttu við alvarleg nýrnaveikindi. Hann var jarðsettur í kyrrþey að eigin ósk í kirkjugarði Laugardæla í Flóa.

Í þættinum rifja þeir upp „gömlu góðu dagana“ en einnig segja þeir frá, að á 100 ára afmæli FIDE sem haldið var í Búdapest fyrir stuttu hafi heimsmeistaraeinvígið í skák 1972 verið valið „Minnisstæðasti skákviðburður allra tíma“ í sögu FIDE. Auk þess var Friðriki Ólafssyni, fyrrverandi forseta FIDE veitt þakkarviðurkenning fyrir störf hans í þágu Alþjóðaskáksambandsins (FIDE).

 

Eldri þætti má nálgast hér á Spotity.

- Auglýsing -