Mikil gróska og áskókn virðist vera hjá íslenskum skákmönnum í að sækja mót erlendis. Síðastliðin tvö sumur hafa verið nánast fordæmalaus með skák upp á nánast hvern einasta dag hjá íslenskum skákmönnum erlendis. Eitt af þeim löndum sem hefur verið fast sótt til er Holland en þar fara oft fram mót sem taka stuttan tima og henta því vel „hobbý-skákmönnum“.

Amsterdam Open sem fer fram núna um helgina er akkúrat slíkt mót og að mestu fyrir tilstilli Gauta Páls Jónssonar eru heilirsex íslenskir skákmenn sem nú tefla á því móti!

Mótið er flokkaskipta í A, B, C og D-flokka eftir stigum. Í C-flokki þar sem skákmenn hafa mest um 1800 elóstig tekur Páll Þórsson (1826) þátt og er 3. stigahæsti keppandi flokksins. Í B-flokki eru efstu menn rétt undir 2000 elóstigum og þar tekur Davíð Stefánsson (1851) þátt.

Í A-flokki eru svo fjórir íslenskir skákmenn en þar er Dagur Ragnarsson (2346) stigahæstur okkar manna og númer 6 í stigaröðinni, Björn Hólm Birkisson (2202) er númer 24, Oliver Aron Johannesson (2171) er númer 29 og loks Gauti Páll Jónsson (2098) númer 45. Reyndar virðist heimasíða mótsins notast við gömul stig þar sem t.d. Gauti og Oliver er báðir mun hærri í dag.

Í C-flokki fór Páll ekki vel af stað og tapaði í fyrstu umferð. Stressið tók greinlega yfir og í Pirc vörn með svörtu lék Páll illa af sér í byrjuninni og tapaði manni.

Davíð tapaði sinni skák í B-flokki en líkt og í öllum flokkum liggja hvorki fyrir úrslit í 2. umferð né paranir í 3. umferð vegna tæknilegra örðugleika…frekar pínlegt. Spurning hvort að Gauti Páll Jónsson gæti kynnt Hollendingum fyrir einfaldleika og áreiðanleika chess-results!

Í A-flokknum var gengið mismunandi í fyrstu umferð. Strákarnir tefldu allir niður fyrir sig. Skák Dags var sú eina sem var beint. Andstæðingur Dags virkaði gríðarlega vel undirbúinn í byrjuninni ef mið er tekið af tímanotkun og Dagur náði einhvern veginn aldrei að rétta skútuna eftir að svartur náði undirtökum í miðtaflinu.

Aðrar skákir gengu vel en Björn Hólm, Oliver og Gauti Páll unnu allir sínar skákir.

Eins og áður segir liggja ekki fyrir öll úrslit úr 2. umferð en þó liggur fyrir að Gauti náði fínu jafntefli í 2. umferð þar sem hann var einn Íslendinga í beinni útsendingu. Gauti mætti þar FIDE-meistaranum Onno Elersma (2322) og fékk upp Bd3 afbrigðið gegn Frakkanum sem hann tefldi einmitt fyrr í vikunni gegn Ingvari Wu á Y2000 mótinu.

Gauti fékk fína stöðu og eflaust svekktur að gera ekki meira úr miðtaflinu en á endanum var svartur þó manni yfir í endatafli en Gauti aldrei í teljandi taphættu. Fínt jafntefli.

Taflmennskan heldur áfram um helgina með tveimur umferðum á dag. Skak.is fylgist með eins og hægt er.

- Auglýsing -