Fyrsti leikurinn Margeir Pétursson sat andspænis Indverjanum Gukesh þegar EM taflfélaga var formlega opnað. Gunnar Björnsson varaforseti evrópska skáksambandsins fylgist með. — Heimasíða EM taflfélaga.

Tvö íslensk lið keppa á Evrópumóti sem lýkur nú um helgina í Vrnjacka í Banja í Serbíu. Víkingaklúbburinn er aftur mættur til leiks með Jóhann Hjartarson á 1. borði og þar á eftir koma Björn Þorfinnsson, Rúnar Sigurpálsson, Páll Agnar Þórarinsson, Símon Þórhallsson, Gunnar Freyr Rúnarsson og Sigurður Ingason. Skákdeild Breiðabliks státar af liðsmönnum sem allir eru yngri en 25 ára og hafa lengi búið í Kópavogi: Vignir Vatnar Stefánsson, Hilmir Freyr Heimisson, Bárður Örn Birkisson, Björn Hólm Birkisson, Birkir Ísak Jóhannsson og Benedikt Briem. Þá má líta svo á að klúbburinn Gambit Bonnevoie, sem rekur uppruna sinn til Lúxemborgar, sé að hluta til íslenskur því fyrir hann tefla Margeir Pétursson og Óskar Bjarnason.

Ekki er við því að búast að íslensku sveitirnar blandi sér í toppbaráttuna. Nokkrar geysilega sterkar sveitir eru meðal 84 þátttakenda en sú hæst skrifaða ber nafnið SuperChess og teflir undir fána Rúmeníu. Sveitin, sem hefur tvo úr sigurliði Indverja frá því í Búdapest innanborðs, Gukesh og Praggnanandhaa, tapaði hins vegar óvænt, 2:4, fyrir sveit flugfélagsins Turkish airlines. Gukesh tapaði fyrir Dmitry Andreikin og Praggnanandhaa fékk eftirminnilegan skell:

EM taflfélaga 2024, 4. umferð:

Tabatabaei – Praggnanandhaa

Síðasti leikur svarts var 31. … h7-h5. Hann hefði betur sleppt þeim leik því nú kom …

32. Rxf7! Kxf7 33. He7+! Kxe7 34. Dxg7+ Ke8 35. He1+ Kd8 36. Df6+!

Afar nákvæmur leikur.

36. … Kc7 37. Dd6+ Kb7 38. He7+ Ka6 39. Dxc6+ Ka5 40. Hb7!

Sannkallaður þrumuleikur sem Tabatabaei varð að hafa séð þegar hann lagði í fórnirnar. Pragg er varnarlaus og gafst upp.

Skákdeild Breiðabliks hefur tvisvar unnið gegn sterkum andstæðingum og er nú með fimm stig í 27. sæti. Hetjan í þeirra liði er án efa Birkir Ísak Jóhannsson, sem missti að vísu af góðum vinningsfærum í 3. umferð þegar Blikar tefldu við ísraelskt lið með sjálfan Gelfand innanborðs en hefur unnið tvo lykilsigra fyrir sitt lið og er með þrjá vinninga af fjórum mögulegum.

Víkur þá sögunni að Jóhanni Hjartarsyni, sem vann góðan sigur yfir frægum ísraelskum stórmeistara í 3. umferð. Þar náði hann að bæta enn einni rósinni í það hnappagat sem nefnist Tschigorin-afbrigði spænska leiksins:

EM taflfélaga 2024; 3. umferð:

Ilja Smirin – Jóhann Hjartarson

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 a6 4. Ba4 Rf6 5. O-O Be7 6. He1 b5 7. Bb3 d6 8. c3 0-0 9. h3 Ra5 10. Bc2 c5 11. d4 Dc7 12. Rbd2 Bd7 13. Rf1 Rc4

Leikur sem Tigran Petrosjan hafði mikið dálæti á og kom m.a. fyrir í frægri skák gegn Kortsnoj í Curacao 1962.

14. b3 Rb6 15. Re3 c4 16. bxc4 Rxc4 17. Rxc4 bxc4 18. a4 a5 19. Ba3 Hfe8 20. Hb1 Bf8 21. Dd2 h6 22. De3 Rh5 23. Hed1 Rf4 24. dxe5 dxe5 25. Bxf8 Kxf8 26. Rxe5!?

Þessi leikur kom flestum á óvart, m.a. vegna svarleiksins. Engu að síður er staðan áfram í jafnvægi.

26. … Rxh3+! 27. gxh3 Hxe5 28. h4 Ha6! 29. Hd5 Hg6+ 30. Kf1 Hxd5 31. exd5 Hf6 32. He1 Dd6 33. Bh7?

Tapleikurinn að mati Jóhanns. Staðan er í jafnvægi eftir 33. h5.

33. … Hf4! 34. Dg3 g6 35. h5 g5 36. Be4 Dc5 37. Bc2 Bh3 38. Ke2 Bg4 39. Kf1 Dxd5 40. Dg2 Dd2!

Hótar 41. … Bh3. Smirin á ekkert yfir því og gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 26. október 2024

 

- Auglýsing -