Vignir að tafli á HM U20 árið 2023 Mynd. David Llada

EM einstalkinga hófst í dag með 1. umferð en mótið fer fram í Petrovac í Svartfjallalandi. 388 keppendur hófu leik í dag og Íslendingarnir sem taka þátt (nafn, stig, stigaröð) eru:

Vignir Vatnar Stefánsson (2530) nr. 86
Hannes Hlífar Stefánsson (2485) nr. 116
Guðmundur Kjartansson (2470) nr. 122
Helgi Áss Grétarsson (2441) nr. 139
Aleksandr Domalchuk-Jonsson (2399) nr. 183

Alls taka 388 skákmenn þátt á mótinu og stórmeistarar vel yfir hundraðið! Vladimir Fedoseev (2712) er stigahæstur keppenda.

Allir íslensku keppendurnir tefldu niður fyrir sig í fyrstu umferð og heilt yfir var hún nokkuð farsæl þó hurð hafi skollað óþægilega nærri hælum á köflum!

Vignir hafði hvítt gegn Serbanum Ante Leon Starcevic (2200). Upp kom Maroczy-bind staða og Vignir í fínum málum en varð þá sekur um yfirsjón. Aðgerðir Vignis sem hófust með 20.Bc7?? höfðu stóran taktískan galla sem Vignir fattaði þegar hann var kominn af stað í varíantinn en þá var það orðið of seint.

Vignir varð að „halda coolinu“ og lék 23.Bf3 af miklu öryggi (sjá stöðumynd). Öryggið var það mikið að andstæðingur hans fór að hrista hausinn og lék 23…Da5? sem tapar örugglega. 23…Db5 24.b7 Ha6 var hinsvegar það sem Vignir hafði upphaflega misst af sem er á hinn bóginn unnið á svart!

Vel sloppið hjá Vigni en á móti gott „blöff“!

Hannes hafði einnig hvítt, mætti CM Maxime Marie (2154) og þurfti heldur betur að hafa fyrir punktinum. Fransmaðurinn með svart hleypti öllu í bál og brand…

17…Rxf2! var réttmæt fórn og svartur er með yfirhöndina skv. tölvunum. 17. leikur Hannesar 17.h3 því lélegur. Í hönd fór spennandi kafli þar sem Hannes hélt vel sjó þrátt fyrir sviptingar.

29…De3!! var síðasti séns svarts til að halda velli og sá leikur hefði líklega tryggt jafntefli með þráskák. 29…Be2?? reyndist hinsvegar tapleikur, mjótt á milli!

Guðmundur hafði líka hvítt gegn FM Gabriel Voiteanu (2142). Rúmeninn fór í vafasamar aðgerðir með 25…f5?

26.Rc5 Rxg2 reyndist misráðið og var Guðmundur með allt á hreinu 27.He5! hótar Hxd5  næst og svo BB3 og því lék svartur 27…Kh8 en þá kom samt 28.Hxd5 Dxd5

29.Be4! og nýtir leppunina til að vinna lið og eftirleikurinn varð nokkuð auðveldur.

Helgi Áss var ekki í beinni útsendingu en hann mætti Ognian Stoychev (2071) og tefldi eina lengstu skák umferðarinnar…greinilega einhver svíðingslykt af skák Helga með svörtu gegn þessum Búlgara á vizkualdrinum.

Aleksandr Domalchuk-Jonasson náði einnig í sigur í sinni skák með svörtu gegn Onem Cem (1825) frá Tyrklandi.

Fín úrslit, allt hreinsað í fyrstu umferð!

Róðurinn þyngist töluvert í næstu umferð!

Hannes er kominn á eitt af efstu borðunum og mætir Nikita Vitiugov sem var 2700-stiga skákmaður ekki alls fyrir löngu. Hannes hefur svart eins og Guðmundur gegn Ruslan Ponomariov fyrrum FIDE heimsmeistara. Helgi hefur svo svart gegn Hovhannisyan, armenskum landsliðsmanni. Vignir teflir enn niður fyrir sig en Aleksandr hefur hvítt gegn Íslandsvininum Sabino Brunello.

Skákir hefjast 14:00 að íslenskum tíma (14:15 með delay). Teflt er á hverjum degi og frídagur eftir sjöttu umferð.

- Auglýsing -