Heimsmeistaraeinvígi Fischers og Spasskís í Reykjavík sumarið 1972 var valið minnisstæðasti skákviðburðurinn í 100 ára sögu FIDE. Þetta var tilkynnt við sérstaka athöfn í tilefni aldarafmælis FIDE sem fram fór samhliða Ólympíumótinu í Búdapest í september. Þetta er engin smávegis viðurkenning og þótt hún miðist við síðustu 100 ár, eða frá því að FIDE var stofnað í París í júlí 1924, er raunverulega verið að segja að þessi atburður, sem leysti úr læðingi verk á sviði kvikmynda, heimildarmynda, þáttagerðar, bókmennta, leikverka, söngleikja og dægurtónlistar, sé algerlega einstæður í skáksögunni. Tveir stjórnarmenn Skáksambandsins meðan á „Einvígi aldarinnar“ stóð, Guðmundur G. Þórarinsson forseti og Hilmar Viggósson gjaldkeri, veittu síðan fallegum grip viðtöku í höfuðstöðvum SÍ á dögunum.
Nokkrar aðrar viðurkenningar voru veittar í Búdapest og tók Gunnar Björnsson, forseti SÍ, við sérstökum þakkarskildi til handa Friðriki Ólafssyni, fyrrverandi forseta FIDE og fyrsta stórmeistara Íslendinga, fyrir framlag hans til skáklistarinnar.
Góður endasprettur Blika á EM taflfélaga
Skákdeild Breiðabliks endaði í 22. sæti af 84 liðum á EM taflfélaga sem lauk í Vrnjacka Banja í Serbíu um síðustu helgi. Sveitin vann tvær síðustu viðureignir sínar og hlaut 9 stig af 14 mögulegum. Evrópumeistari varð tékkneski skákklúbburinn Novi Bor sem hafði innanborðs þá Vidit og Harikrishna úr ólympíuliði Indverja, besta skákmann Þjóðverja í dag, Vincent Keymer, og fleiri góða menn. Sveitin hlaut 13 stig af 14 mögulegum.
Víkingaklúbburinn varð í 51. sæti.
Af íslensku þátttakendunum hlutu flesta vinninga: Hilmir Freyr Heimisson sem náði bestum árangri íslensku keppendanna sem reiknaðist upp á 2509 Elo-stig, Björn Þorfinnsson, Símon Þórhallsson og Bárður Örn Birkisson, allir með 5 v. af 7 mögulegum. Mestri stigahækkun náði Símon Þórhallsson, sem hækkaði um 27,2 Elo-stig.
Ungmennalið Blikanna náði vel saman og baráttugleðin var allsráðandi. Bárður Örn Birkisson sat til dæmis uppi með tvo létta gegn drottningu í einni af skákum sínum en vann að lokum og Hilmir Freyr komst í hann krappan í 6. umferð. Lítum á skák hans úr lokaumferðinni:
EM taflfélaga 2024; 7. umferð:
Hilmir Freyr Heimisson – Anton Zlatkov
Drottningarindversk vörn
1. Rf3 Rf6 2. g3 b6 3. Bg2 Bb7 4. O-O e6 5. c4 Be7 6. b3 O-O 7. Bb2 d5 8. e3 c5 9. Rc3 dxc4 10. bxc4 Rc6 11. De2 Hc8 12. Re1
Riddarinn víkur fyrir f-peðinu um stundarsakir en nær að byggja upp ógnandi peðakeðju á kóngsvæng.
12. … Dd7 13. f4 Hfd8 14. d3 Rb4 15. Bxb7 Dxb7 16. g4 a6 17. a3 Rc6 18. a4! Re8 19. Hf3 Rb4 20. Hh3 g6 21. Hd1 f5?!
Ekkert lá á þessum leik. Eðlilegt er 21. … Bf6 og staðan er í jafnvægi.
22. gxf5 exf5 23. e4 Dd7 24. He3!? Bf6 25. Rf3 Bd4 26. Rd5
Hvítur þarf ekki að óttast þótt hann missi svartreita biskupinn.
26. … Bxe3+ 27. Dxe3 fxe4?
Tapleikurinn. Mun betra var 27. … Dxa4 en eftir 28. Hd2 Rxd5 29. exd5! eru möguleikar hvíts betri.
28. dxe4 Rxd5 29. cxd5 Dxa4 30. Hd2 Rg7 31. f5 He8 32. fxg6!
Ekki dugir 32. … Dxe4 vegna 33. gxh7+ Kh8 34. Bxg7+ Kxg7 35. Hg2+ Kf8 36. Dh6+ og mátar.
32. … hxg6 33. Dh6 Hc7 34. Rg5 Kf8 35. d6!
– og svartur gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 2. nóvember 2024