Josef Omarsson (2047) lauk í gær leik á Heimsmeistaramóti Ungmenna í flokki U14 í Florianopolis í Brasilíu. Josef vann sigur í tíundu umferð en varð svo að lúta í dúk í lokaumferðinni.
Josef gerði vel í tíundu umferð þar sem hann hafði svart gegn Indverjanum Bhatt Abheek (1816). Upp kom gambítur sem Josef hefur fína reynslu í og var hann til í tuskið í þeirri baráttu. Indverjinn kom með jafnteflisboð í tvísýnni stöðu en Josef hafnaði því, hefur verið eins og margir ungir skákmenn harðir á því að minnka eða hreinlega sleppa jafnteflisboðum og sjálfstraustið skilaði sér að þessu sinni.
Í lokaumferðinni hafði Josef svo hvítt gegn Ítalanum Claudio Emanuele Costantino (2028). Josef varð að lúta í dúk og lauk því leik með 50% skor og fékk 5,5 vinning í skákunum 11.
Josef er númer 31 í stigaröð af 118 keppendum en endaði í 52. sæti. Josef tapar 51 elóstigi á mótinu en Skak.is gerir ráð fyrir að hann verði fljótur að ná þeim til baka líkt og hann gerði með afburðaframmistöðu í B-flokki Haustmótsins á dögunum.