Evrópumót einstaklinga hélt áfram um helgina en önnur og þriðja umferð kláruðust í Petrovac í Svartfjallalandi. 388 keppendur taka þátt og Íslendingarnir sem taka þátt (nafn, stig, stigaröð) eru:

Vignir Vatnar Stefánsson (2530) nr. 86
Hannes Hlífar Stefánsson (2485) nr. 116
Guðmundur Kjartansson (2470) nr. 122
Helgi Áss Grétarsson (2441) nr. 139
Aleksandr Domalchuk-Jonsson (2399) nr. 183

Eftir verulega farsæla upphafsumferð þar sem allir Íslendingarnir unnu sínar skákir var komið að alvöru dæmi í 2. umferð!

Hannes átti erfiða skák með svörtu gegn Nikita Vitigov. Sterkur skákmaður sem hefur teflt með landsliði Rússa, verið 2700+ en er nú á fyrsta borði fyrir Englendinga. Hannes átti í fullu tré við Vitiugov en ónákvæmni í 22. leik varð til þess að staða hans hrundi. 22…Re5 hefði haldið jafnvæginu en 22…Rf4? sem var leikið reyndist slæmur þar sem 23. e5 hjá hvítum opnaði flóðgáttir að svörtu stöðunni.

Guðmundur Kjartansson fékk klárlega erfiðasta prógram helgarinnar. Hann byrjaði vel í 2. umferð með því að gera jafntefli við fyrrum FIDE heimsmeistarann Ruslan Ponomariov. Guðmundur tefldi vel og virtist aldrei í vandræðum og í lokin var það Ruslan sem þvingaði þráskák í drottningarendatafli.

Íslandsmeistarinn Helgi Áss Grétarsson lenti í langri og erfiðri vörn gegn armenska landsliðsmanninum Robert Hovhannisyan. Helgi leysti taflið upp í endatafl þar sem báðir áttu hrók en jafnframt mislita biskupa. Þetta var í 28. leik. Svartur hafði umframpeð en náði ekki að láta það telja fyrr en í 89. leik þegar Helgi loks lék af sér eftir langa og stranga vörn. Grátlegt tap.

Vignir hafði vaðið fyrir neðan sig með svörtu gegn 2400+ alþjóðlegum meistara með svörtu. Vignir tefldi tískuafbrigði í caro-kann vörn og var aldrei í hættu. Í 34. leik átti Vignir tök á að ná góðu haldi á stöðunni (34…De7) en lék 34…Da6 og náði ekki að komast í gegn.

Aleksandr tefldi nokkuð áhættulítið afbrigði gegn Grunfeldsvörn Brunello. Sökum mistlitra biskupa í endataflinu virtist jafnteflið nokkurn veginn liggja í loftinu lengst af.

3.umferð

Þriðja umferðin gekk þokkalega hjá þeim íslensku. Guðmundur hélt áfram erfiðu prógrami. Hann hafði hvítt gegn Ediz Gurel sem er vonarstjarna Tyrkja.

Guðmundur missti eilítið tökin á hvítu stöðunni þegar Tyrkinn braust fram með …g5!? og hrakaði hvítu stöðunni jafnt og þétt í kjölfarið.

Vignir og Aleksandr lentu í leiðindapörun. Þeir hafa teflt nógu oft við hvorn annan og rakin óheppni að lenda í því á 388 manna Evrópumóti í Svartfjallalandi!

Vignir hafði betur eftir langa Catalan skák. Vignir var lengst peði yfir og endaði skákin í hróksendatafli. Í hróksendataflinu urðu mistök á báða bóga og skákin sveiflaðist úr sigur á Vigni í jafntefli til skiptis en á endanum hafði Vignir betur.

Hannes tefldi hörkubaráttuskák í Sikileyjarvörn gegn frönskum FM Joachim Mouhamad. Hannes fékk eiginlega aldrei nóg til að eygja vinningsmöguleika og ef einhverjir möguleikar voru fyrir hendi voru þeir svarts megin. Jafntefli niðurstaðan.

Segja má að andstæðingur Helga Áss hafi „mizzt“ þráðinn nokkuð snemma í lok byrjunar / byrjun miðtafls. Helgi vann nokkuð auðveldan tæknilegan sigur eftir misheppnaða peðsfórn andstæðings síns.

Vignir er hæstur Íslendingana eftir 3 umferðir með 2,5 vinning, Helgi Áss hefur 2 vinninga en hinir þrír hafa allir 1,5 vinning.

Erfið verkefni bíða í 4. umferð. Vignir hefur svart gegn Anton Korobov sem er gríðarlega sterkur skákmaður. Undirritaður hjálpaði félaga sínum eitt sinn að undirbúa sig fyrir Korobov fyrir um tveimur áratugum. Þá hafði ungur Korobov fengið 19,5 í síðustu 21 kappskák sinni með hvítt…ekki öfundsvert að eiga við það! Helgi Áss fær líka erfitt verkefni, franski landsliðsmaðurinn og einn af fyrrverandi aðstoðarmönnum Carlsen í heimsmeistaraeinvigjum, sjálfur Laurent Fressinet. Íslendingarnir með 1,5 vinning tefla svo allir niður fyrir sig í fjórðu umferðinni.

Skákir hefjast 14:00 að íslenskum tíma (14:15 með delay). Teflt er á hverjum degi og frídagur eftir sjöttu umferð.

- Auglýsing -