Augu skákheimsins beinast nú að Singapúr þar sem fram fer Heimsmeistaraeinvígi ríkjandi Heimsmeistara Ding Liren frá Kína gegn áskorandanum Dommaraju Gukesh frá Indlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem tveir skákmenn frá Asíu mætast í Heimsmeistaraeinvígi. Segja má að fyrsta skákin hafi að mörgu leiti komið skákheiminum í uppnám þar sem Ding vann sigur með svörtu mönnunum og hefur tekið forystu í einvíginu þar sem tefldar verða 14 skákir til að finna næsta heimsmeistara. Einvígið er styrkt af tæknirisanum Google sem ætti að gefa aukið áhorf á einvígið og heimsathygli á skákíþróttina!
En af hverju kemur það á óvart að ríkjandi heimsmeistari hafi unnið skák? Áður en við förum yfir gang mála í skák dagsins er vert að rifja upp aðdraganda einvígisins og eftirmála síðasta einvígis.
Ding Liren hrifsaði Heimsmeistaratitilinn um mitt ár 2023. Ding lagði þá Ian Nepomniachtchi að velli í einvígi þar sem þessir tveir efstu menn Áskorendamótsins á undan kepptu um titilinn. Magnus Carlsen hafði þá gefið frá sér klassíska Heimsmeistaratitilinn eins og frægt er orðið og „beltið“ því laust. Ding vann einvígið gegn Nepo en einhvern veginn virðist einvígið hafa gjörsamlega kramið taugakerfið á Ding og hann hefur eiginlega ekki verið sjón að sjá eftir að hann varð Heimsmeistari.
Í maí árið 2023 var Ding Liren númer 3 í heiminum með 2789 elóstig. Eftir að hann varð Heimsmeistari hefur hann lítið teflt og með takmörkuðum árangri! Eitt af fyrstu mótunum sem Ding tók þátt í eftir að hann varð Heimsmeistari var Fischer Random mót þar sem hann vann varla skák og var með neðstu mönnum.
Á Tata Steel í upphafi árs 2024 fékk Ding aðeins 6 vinninga af 13 og tapaði tæpum 20 elóstigum. Hann vann reyndar gegn Gukesh á því móti og hin vinningsskákin hans var gegn Max Warmerdam í næstsíðustu umferð. Merkilegt nokk, síðasta vinningskák Ding í kappskák, þangað til í dag!
Síðasta kappskákmót Ding var Ólympíuskákmótið þar sem Ding gerði 7 jafntefli og tapaði einni skák á fyrsta borði. Í lykilviðureign Kína og Indlands var líkt og Ding þorði ekki eða treysti sér ekki til að tefla gegn Gukesh sem var í fantaformi og hvíldi…eitthvað sem hlýtur að vera fordæmalaust hjá Heimsmeistara! Greinarhöfundur sá Ding í einhverjum skákum hreinlega skjálfandi á höndum eins og hann réði ekki við verkefnið.
Skiljanlega hafa því flestir í aðdraganda einvígsins veðjað á Gukesh, talið einvígið nánast formsatriði og Gukesh sé að fara að verða yngsti heimsmeistari sögunnar. Veðbankar fyrir einvígi sögðu 1,27 í stuðul á Gukesh en 3,5 á Ding. Í stuttu máli þýðir það að 1.000 krónur lagðar á Gukesh hefðu skilað 270 krónum í hagnað en sami 1.000 kall á Ding mynd gefa 2.500 krónur í hagnað ef Ding vinnur einvígið.
Þetta „kjörgengi“ Gukesh stafast fyrst og fremst af glæsilegum framgangi hans undanfarið og frábæru gengi á Áskorendamótinu auk þess sem hann virtist vera ósnertanlegur með 9 vinninga af 10 á Ólympíuskákmótinu þar sem hann hlaut gullverðlaun fyrir bestan árangur á fyrsta borði. Gukesh er reyndar líklegast besti fyrsta borðsmaður í sögu Ólympíuskákmóta eftir tvö mót!
Gukesh hikstaði eilítið á EM taflfélaga nú skömmu fyrir mót en var engu að síður númer 5 í heiminum fyrir einvígið með 2783 elóstig, nýbúinn að daðra við 2800 stiga múrinn. Ding var hinsvegar dottinn niður í númer 22 í heiminum með 2728 elóstig.
Fyrsta skákin kom því eins og áður sagði mjög á óvart. Ding svaraði kóngspeðsleik Gukesh 1.e4 með því að tefla franska vörn. Ding hefur yfirleitt teflt klassískt 1…e5 en greip þó í franska vörn í síðasta einvígi og tefldi „Frakkann“ þegar hann var yngri. Líklegt verður að teljast að þetta hafi aðeins verið „vopn“ í eina skák til að kanna eilítið undirbúning Gukesh og koma honum á óvart.
Ding byrjaði þó fyrr að nota tíma sinn. Í 7. leik eyddi hann um 27 mínútum.
7…a5 varð fyrir valinu en Ding sagði þó eftir skák að hann hefði fyrst og fremst verið að rifja upp línur sem hann mundi ekki nógu vel. Leikaðferð Gukesh kom honum þannig séð ekki á óvart.
Ding virtist komast nokkuð klakklaust úr byrjuninni og byrjaði að taka yfir stöðulega.
21.f5?! Dd3 22.De1?! Bg5 23.Hc2 Hc4 virtist gefa svörtum mjög gott stöðulegt hald á skákinni. Ding náði líklegast ekki að nýta sér til fulls peðsvinning sinn og Gukesh hafði bætur með biskupaparið.
30.Dc2? virtist upphafið að endinum og Ding missti ekki tökin eftir 30…Dc4 og vann örugglega. Þess í stað var 30.Bc5!? óljós staða eftir 30…Dxg4. Hvítur hefur bætur fyrir peðin þar sem kóngur hans er öruggari og biskupaparið sterkt hjá hvítum. Svartur ætti samt ekki að vera í vandræðum með nákvæmustu taflmennsku og standa betur.
Skemmtileg staða með „smá lús“ hvítur á hér best 31.Hf3 eða 31.Dc2 með bætur fyrir peðin. 31.Dxh7?? sem virkar freistandi (31…Hxh7 32.Hf8 mát) strandar á 31…Dd4+ eins og Ding benti á á blaðamannafundi.
Gukesh gafst upp eftir 42. leik svarts, mát í ca. 11 leikjum skv. tölvuforritum og staðan vonlaus.
Sterk byrjun hjá Ding en nóg er eftir af einvíginu! Við þekkjum það úr skáksögunni að ungi áskorendur hafa áður tapað fyrstu skák sinni en samt unnið örugglega samanber Fischer vs Spassky. Einvígið í dag er þó töluvert styttra en 14 skákir er feykinóg.
Blaðamannafundur
Önnur skákin fer fram á morgun og hefjast skákirnar klukkan 09:00 á íslenskum tíma. Tefldar eru þrjár skákir og svo er frídagur.
- Heimasíða einvígisins
- Skákir einvígisins á lichess
- Skákir einvígisins á chess.com
- Ofurtölvurannsóknir Sesse
Stúderingar á skák #1:
Skákmenn eru eiginlega „yfirspilltir“ þegar kemur að aðgengi að efni frá heimsklassaskákmönnum. Hér að neðan eru dæmi um stúderingar á 1. skákinni þar sem menn eins og Carlsen, Caruana og Hikaru ásamt Kramnik tjá sig um gang mála!
Vladimir Kramnik 14. heimsmeistari (án tölvu!)
Magnus Carlsen með sína sýn á fyrstu skákina fyrir Take Take Take YouTube rásina.
Fabiano Caruana á C-Squared rásinni
Hikaru Nakamura fer yfir 1. skákina.
Daniel King stórmeistari
Gothamchess – alþjóðlegi meistarinn Levy Rozman