Franska vörnin kom aftur upp í fimmtu skák Heimsmeistaraeinvígis Ding Liren og Dommaraju Gukesh í Singapúr í dag. Indverjinn ungi valdi hið saklaus uppskiptaafbrigði 3.exd5 en á endanum var það Ding Liren sem fékk sénsana en var ekki nógu harður í að refsa áskorandanum unga.
Gukesh greip aftur til kóngspeðsins eins og í fyrstu skákinni. Fastlega má búast við því að Gukesh sé með góðar leiðir til taks tefli Ding 1…e5 eins og hans er von og vísa. Engu að síður áttu ekki margir von á því að Ding myndi tefla franska vörn aftur en það er nákvæmlega það sem hann gerði.
Mögulega hefur Gukesh og hans lið ekki talið það líklegt og í stað krítískra lína fór Gukesh í öruggt uppskiptaafbrigði með 3.exd5. Hvítur á að fá örugga stöðu og litlar hættur en að sama skapi getur verið erfitt að vinna skákir í þessu afbrigði á þessu stigi skákarinnar.
Allt var með kyrrum kjörum og drottningarnar fóru snemma af borðinu en Gukesh stóðst ekki mátið í 17. leik
Í þriðja skiptið af þremur með hvítu mönnunum æddi Gukesh af stað með g-peð sitt, 17.g4. Í tvö skipti af þremur hefur Gukesh svo náð að leika g4-g5. Framrás þessi olli þó Ding engum vandræðum og ef eitthvað veikti það hvítu stöðuna.
Enn fleiri uppskipti urðu en Ding náði í valdaðan frelsingja á d-línunni.
Hér gæti maður ímyndað sér að Magnus Carlsen með svörtu hefði pínt andstæðing sinn í 80-100 leiki og í einhverjum tilvikum haft betur. Ding hinsvegar annaðhvort missti þráðinn eða var svona rosalega ánægður með jafntefli með svörtu að hann gerði nánast engar tilraunir til að vinna skákina. Meira að segja í endataflinu með mislitum biskupum gaf hann d-peðið til að fá upp örugga jafnteflisstöðu peði undir.
Fín úrslit fyrir Ding með svörtu engu að síður en menn verða líklega að nýta öll færi sem fást í svona einvígi ætli þeir sér eitthvað!
Blaðamannafundur
Fimmta skákin fer fram á laugardaginn. Skákirnar hefjast klukkan 09:00 á íslenskum tíma. Tefldar eru þrjár skákir og svo er frídagur.
- Heimasíða einvígisins
- Skákir einvígisins á lichess
- Skákir einvígisins á chess.com
- Ofurtölvurannsóknir Sesse
Stúderingar á skák #5:
Skákmenn eru eiginlega „yfirspilltir“ þegar kemur að aðgengi að efni frá heimsklassaskákmönnum. Hér að neðan eru nokkur dæmi um stúderingar á 5. skákinni. Þeir sem hafa verið að gera vídeó-samantektir hingað til eru menn eins og Carlsen, Caruana og Hikaru ásamt Kramnik tjá sig um gang mála!
Hikaru Nakamura stórmeistari var ekki ánægður með Ding
Daniel King stórmeistari
GM Aman Hambleton Chessbrahs