— Ljósmynd/Heimasíða FIDE

Heimsmeistaraeinvígi Ding Liren og Dommaraju Gukesh sem verður sett í dag í Singapúr brýtur blað í margvíslegum skilningi. Þetta er t.a.m. fyrsta heimsmeistaraeinvígi þar sem Asíubúar mætast, heimsmeistarinn Ding Liren er frá Kína og hinn 18 ára gamli indverski áskorandi gæti með sigri orðið yngsti heimsmeistari sögunnar. Fjölmennustu þjóðir heims fóru ekki að láta að sér kveða á alþjóðavettvangi skákarinnar fyrr en undir lok 20. aldar þó að uppruni skáklistarinnar sé rakinn til Indlands og jafnvel ársins 326 fyrir Krists burð þegar Alexander mikli fór með herleiðangur sinn yfir fljótið Jhelum og hitti fyrir við bakka þess Porus kóng Indverja og af hlaust fræg orrusta. Hersveitir Porusar voru skipaðar fótgönguliðum, fílum, stríðsvögnum og riddaraliðsmönnum. Borðleikur Indverja, Chaturanga, var þannig samansettur.

Tæknirisinn Google er helsti kostunaraðili einvígisins, en tefldar verða 14 skákir með venjulegum umhugsunartíma og síðan gripið til styttri skáka fáist ekki úrslit. Fyrsta skákin er á dagskrá á mánudaginn og hefst kl. 9 að íslenskum tíma.

Erfiðir dagar á EM einstaklinga

Vignir Vatnar Stefánsson og Guðmundur Kjartansson náðu bestum árangri íslensku skákmannanna á geysisterku EM einstaklinga sem lauk í bænum Petrovac í Serbíu á þriðjudag. Tefldar voru ellefu umferðir og hlaut Vignir 6½ vinning og varð í 83. sæti af 388 keppendum. Guðmundur hlaut 6 vinninga og varð í 154 sæti. Hannes Hlífar Stefánsson hlaut 4½ vinning en Helgi Áss Grétarsson og Alexander Domalchuk voru báðir með 4 vinninga af 11.

Sigurvegari mótsins og Evrópumeistari varð Serbinn Alexandar Indjic.

Lítum á skemmtilegan sigur Vignis undir lok mótsins:

EM einstaklinga 2024, 9. umferð:

Vignir Vatnar Stefánsson – Michele Godena

Ítalskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 d6 5. d4 exd4 6. cxd4 Bb6

Það hefur aldrei þótt gott að gefa eftir miðborðið.

7. Rc3 Rf6 8. h3?

Ónákvæmni sem gefur kost á 8. … Rxe4! með hugmyndinni 9. Rxe4 d5 sem ætti að jafna taflið.

8. … O-O 9. Bb3 Ba5 10. Bg5 h6 11. Bh4 g5

Það er ekki minnsti vafi á því að Godena reiknaði með fórninni á g5 enda þemað vel þekkt í fræðunum. Vandi hans var sá að leppun riddarans var afar óþægileg.

12. Rxg5! hxg5 13. Bxg5 Kg7 14. O-O Bxc3 15. bxc3 De8 16. He1 Rg8

Svartur batt vonir sínar við þennan leik en hvítur getur ráðist strax til atlögu með 17. e5! En Vignir kaus að fara hægar í sakirnar og Godena gefst tími til að byggja upp varnarstöðu.

17. He3 f6 18. Bf4 Kh8 19. Hg3 Rd8 20. Bc2 Re6 21. Be3 Rg7 22. f4 f5 23. e5 d5 24. Hg5 Be6 25. De1 Rh6 26. Dh4 Kh7 27. Hf1 Hh8 28. Hf3 Df7 29. Hfg3 Hag8 30. H3g4!?

Dálítið kostuleg leppun en hverfi riddarinn á g7 eða drottningin á f7 frá valdi af h5-reitnum kemur strax Dxh6+ ásamt Hh4+ og mátar. Þetta þýðir að menn svarts eiga ekki marga reita völ.

30. … Bd7 31. Bc1 Be8 32. Ba3?!

Nú fær svartur varist. Best var 32. Hg3!

32. … Rh5! 33. Hxg8 Hxg8 34. Hg5 Hg7?

Afleikur í miklu tímahraki. Hann gat varist með 34. … Rg7, t.d. 35. g4 Bd7! o.s.frv.

35. g4! Rxf4 36. Hxf5 Dg6

37. Hf6!

Laglegur hnykkur í lokin. Godena gafst upp. Hann sá fram á mát, 37. … Dxc2 38. Hxh6+ Kg8 39. Hh8+ Kf7 40. Df6 mát.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 23. nóvember 2024

 

- Auglýsing -