Á sunnudaginn er komið að úrslitaeinvíginu á Íslandsmótinu í Netskák. Annan hvern sunnudag í vetur höfum við fylgst með útslætti frá 16-manna úrslitum og alveg niður í úrslitin sem eru framundan. Við spáum hér aðeins í spilin fyrir úrslitaeinvígi þeirra Hjörvars Steins Grétarssonar og Helga Ólafssonar. Báðir hafa staðið sig vel og eru komnir sanngjarnt í úrslitin. Það sem gerir þessi úrslit sérstaklega athyglisverð er auðvitað þjálfara/nemanda samband þeirra í gegnum árin en Helgi hefur mikið til fylgt Hjörvari í gegnum hans feril.
Leiðin í úrslit
Í 16-manna úrslitum fékk Hjörvar gríðarlega erfitt einvígi gegn stigahæsta skákmanni Íslands um þessar mundir, Vigni Vatnari Stefánssyni. Vignir tók við því kefli af Hjörvari og Hjörvar vildi greinilega sýna að hann væri ekki dauður úr öllum æðum. Hjörvar komst tvisvar yfir, fyrst í 1-0 og svo í 3-2 en Vignir jafnaði í bæði skiptin. Hjörvar vann þá tvær skákir í röð og að endingu urðu lokatölur 6-4 Hjörvari í vil.
Ekki tók auðveldara verkefni við hjá Hjörvari í 8-manna úrslitum en þar mætti hann goðsögninni Jóhanni Hjartarsyni. Svipað og gegn Vigni byrjaði einvígið á að menn skiptust á skotum og stóðu leikar 2-2 snemma en síðan tók Hjörvar skorpu ekki ósvipað og gegn Vigni og vann þrjár skákir í röð á á endanum 5,5-3,5 sigur.
Í undanúrslitum mætti Hjörvar svo enn einum stórmeistaranum, nú Guðmundi Kjartanssyni. Það virðist vera gegnumgangandi í viðureignum Hjörvars að byrja rólega, þreifa á andstæðingnum. Eftir fimm skákir var staðan 2,5-2,5 og allt í járnum. Eins og í hinum einvígjunum kom þá „dauðastungan“ hjá Hjörvar, hann vann tvær í röð og endaði á að vinna einvígið 5,5-3,5.
Helgi byrjaði sitt mót á viðureign við Þröst Þórhallsson í 16-manna úrslitum. Helgi sýndi margar sínar bestu hliðar þar og komst snemma í 3-1 forystu og gaf fá færi á sér. Þröstur beit aðeins frá sér en lokatölur urðu 5,5-2,5 Helga í vil.
Í 8-manna úrslitum lenti Helgi snemma í mótlæti gegn stórmeistaranum Braga Þorfinnssyni. Bragi kom vel stemmdur til leiks og komst í 2,5-0,5 í einvíginu. Helgi sýndi þá að hann þolir mótlætið og vann sig aftur inn í einvígið og jafnaði það og endurtók svo leikinn eftir að hann lenti undir 2,5-3,5 og hafði svo Helgi að lokum betur 5,5-4,5 í mögnuðu einvígi.
Það kom í hlut Björns bróður Braga að hefna en Helgi var nálægt sínu besta formi og gaf Birni ekkert andrými. Helgi gaf engin færi og komst í 4-1 og lokatölur 5,5-2,5 þar sem sigurinn var aldrei í hættu.
Fyrri viðureignir
Helgi og Hjörvar hafa mæst níu sinnum í hraðskákum yfir borðinu. Litirnir hafa ekki skipst jafn þar og hefur Helgi 7 sinnum haft hvítt í þessum skákum.
Í þessum 7 skákum náði Hjörvar í fjóra sigra með svörtu en Helgi varði hvítu mennina tvisvar með einu jafntefli.
Þegar Hjörvar hafði hvítt vann Helgi eina og eitt jafntefli.
Hraðskákstig
Helgi Ólafsson var lengi vel stigahæstur Íslendinga í hraðskák en tapaði þeirri forystu á Menningarnótt 2015 á kynslóðamóti. Skömmu síðar tók Hjörvar toppsætið í hraðskák sem hann hefur haldið nokkurn veginn síðan þó Vignir sé stigahæstur Íslendinga með „aktíf“ hraðskákstig í dag. Hjörvar náði mest 2720 hraðskákstigum á sínum tíma en hefur aðeins gefið eftir þar. Stigin í dag eru að nálgast að vera nokkuð jöfn hjá þeim.
Stig á Chess.com
Einvígið fer fram á netinu sem lítur að mörgu leiti öðrum lögmálum enda er hér um að ræða Íslandsmótið í netskák. Menn losna við ákveðna „faktora“ eins og ógnandi nærveru og annað og svo kemur annað inn í spilið eins og hæfni með músina þegar tíminn verður af skornum skammti.
Hjörvar hefur sögulega náð hærri stigum með 2849 en Helgi er nær en margir halda og hefur sjálfur náð 2804 stigum á Chess.com. Helgi hefur verið duglegur að æfa sig á netinu og er sem stendur í 2789 sem er töluvert hærra en Hjörvar sem er með 2628 enda minna teflt undanfarið ár.
Lengjustuðlar
Flestar tölur gefa til kynna að Hjörvar ætti að vera örlítið líklegri og metur Lengjan stöðuna þannig:
Helgi er hinsvegar sem fyrr sýnd veiði en ekki gefin. Margir vanmeta Helga oft og benda á að Hjörvar eigi að hafa betur ef skákirnar komast í tímahrak þar sem músin fer að skipta máli. Helgi hefur hinsvegar í fyrri einvígjum nánast alveg náð að forðast það með góðri tímanotkun og þéttri taflmennsku. Það að Helgi sé í jafn góðu formi og hann virðist vera á Chess.com færir e.t.v. líkurnar nær því að vera „fifty-fifty“.
Telji menn að Hjörvar vinni þá gefa 1.000 krónur lagðar á hann 600 krónur í hagnað vinni hann einvígið en setji menn sama 1.000 kall á Helga og vinni hann fá menn 1060 krónur í hagnað.
Sjá hér á Lengjunni
Við mælum með mætingu á Arena á sunnudaginn þar sem úrslitaeinvígið fer fram og hægt verður að fylgjast með á skjá frammi á staðnum þar sem veitingar eru í boði. Björn Þorfinnsson tekur á móti gestum og gangandi.
Íslandsmótið í Netskák er haldið af Rafíþróttasambandi Íslands og vel stutt af Lengjunni, Símanum, Ljósleiðaranum og COLLAB.