Vignir að tafli á HM U20 árið 2023 Mynd. David Llada

Íslensku keppendurnir í Masters grúppu London Chess Classic áttu hreint frábæran dag í áttundu og næstsíðustu umferð þar sem fullt hús vinninga kom í hús! Fyrir lokaumferðina situr Vignir Vatnar Stefánsson í 3-6. sæti og hefur hvítt á öðru borði í lokaumferðinni. Björn Þorfinnsson hefur einnig hvítt í lokaumferðinni og á séns á að ná góðu lokasæti eftir farsælar umferðir seinni part móts.

Íslendingarnir þrír taka þátt í Masters sem er opið mót þar sem 85 skákmenn taka þátt og er Raunak Sadhwani stigahæstur keppenda. Vignir Vatnar er númer 6 í stigaröðinni, Björn Þorfinnsson númer 26 og Björn Hólm Birkisson númer 54.

Fyrir umferðina var Vignir í 5-12. sæti með 5 vinninga af 7 mögulegum eftir hans fyrsta tap á mótinu.

Vignir Vatnar Stefánsson vel einbeittur. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Vignir ákvað greinilega að vera ekkert að grenja yfir gömlum úrslitum og mætti eins og grenjandi ljón með svörtu mönnunum í áttundu umferð gegn heimamanninum IM Jonah Willow (2454).

Grenjandi ljón já, enda tefldi Vignir byrjun sem hefur verið nefnd „Black Lion“ eða „Svarta Ljónið“. Munurinn er hinsvegar sá að Vignir kom með sínar eigin hugmyndir í byrjunina og í stað þess að eyða tíma í Dc7, Rf8, g5, Rg6 eins og margir hafa mælt með gekk Vignir að mörgu leiti hreinna til verks með Hg8 og g5-g4 strax án þess að eyða tíma í drottningu og riddara tilfærslur. Staðan varð óræð og Vignir náði fullkomlega að sýna hvor væri sterkari skákmaður!

Fín skák og enn betri nálgun hjá okkar sterkasta skákmanni í dag!

Þessi sigurskák kemur Vigni í góða stöðu en hann er nú í 3-6. sæti (3. sæti á stigum) og hefur hvítt gegn Oleg Korneev í lokaumferðinni. Vignir hefur áður mætt Korneev og tapaði þá með svörtu en það var fyrir tæpum 6 árum á Hastings og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Vignir hefur endað ofar en Korneev á mótum sem þeir hafa báðir tekið þátt í og Vignir hefur hvítu mennina.

Eftir stutta greiningu má telja líklegt að Vignir tefli traust og ef jafntefli er samið á efsta borði hjá Smirin gegn Sadhwani og á þriðja borði hjá Ghasi og Wadsworth þá getur Vignir aldrei endað neðar en 3-4. sæti með jafntefli gegn Korneev. Vignir mun fyrst og fremst tefla traust en fái hann færi mun hann meta hvor rétt sé að reyna við þau færi!

Í vígahug Björn Þorfinnsson við taflið á Reykjavíkurskákmótinu í fyrra. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Björn Þorfinnsson hefur teflt eins og engill seinni part móts og sigur Arsenal gegn Man Utd. á Emirates virðist hafa hleypt kappi í kinn „Húnsins“. Björn virtist algjörlega jafnvígur á kraftataflmennsku og skynsemi í glimrandi góðum sigri gegn ungverska stórmeistaranum Imre Hera. Á hvaða lyfjum er þessi Björn??

Björn Hólm – Svona mæta menn á sviðið!

Björn Hólm Birkisson náði loks að brjótast úr viðjum jafnteflisgyðjunnar og vann fínan sigur með svörtu. Segja má að Vignir Vatnar hafi átt mikinn þátt í því en afbrigðið sem Björn Hólm beitti hefur Vignir mælt með til langs tíma á vefsíðu sinni vignirvatnar.is og er eiginlega ótrúlegt hversu margir íslenskir skákmenn hafa náð auðveldum vinningum í þessu …Bd6 afbrigði í drotttningarbragði og hvað þá með þessari „elementary“ …Bxh2 fórn sem færði Birni auðveldan sigur.

Lokaumferðin hefst snemma á laugardeginum og verðum gaman að sjá hvað Vignir og íslensku strákarnir gera!

- Auglýsing -