Á föstudagskvöld fór fram Íslandsmót kvenna í hraðskák. Mæting var góð og andinn einstaklega góður. Allar landsliðskonur frá ÓL í Búdapest mættu til leiks og alls voru keppendur 13 talsins!
Búast mátti við harðri og jafnri keppni og kom það sannarlega á daginn! Olga Prudnykova var stigahæst keppenda en hefur lítið getað teflt undanfarna mánuði og sýndi að hún var aðeins ryðguð í fyrstu umferð en hin unga landsliðskona Guðrún Fanney Briem mætti henni af ákveðni og jafntefli niðurstaðan.
Lenka Ptacnikova byrjaði best og var efstu með fullt hús eftir 4 umferðir en Hallgerður og Jóhanna voru vinningi á eftir. Jóhanna lagði Lenku í 5. umferðinni og eftir hana voru þær þrjár allar jafnar með 4 vinninga af 5 og hver búin að leggja aðra innbyrðis. Lenka vann Hallgerði sem vann Jóhönnu sem vann svo Lenku. Lenka var hinsvegar búin að mæta Olgu sem Jóhanna og Hallgerður áttu eftir.
Hallgerður náði að vinna Olgu í gríðarlega mikilvægri og jafnfram spennandi skák í sjöttu umferð. Olga eygði þar möguleika á að vinna sig aftur inn í mótið. Jóhanna náði að leggja Guðrúnu Fanney en Lenka missti niður jafntefli gegn Tinnu, í raun heppin að tapa ekki eftir að hafa leikið af sér manni í endatafli en í tímahraki náði Lenka að redda jafntefli.
Í lokaumferðinni fékk Hallgerður hvítt gegn Guðrúnu en Jóhann mætti Olgu. Jóhanna komst ekki á skrið gegn Olgu og tapaði og það þýddi að Hallgerður var komin í góða stöðu og hún náði að vinna endatafl gegn Guðrúnu á reynslunni.
Þær röðuðu sér því í þrjú efstu sætin Hallgerður, Lenka og Jóhanna og hálfur vinningur skildi að í hvert sæti.
Gaman var að sjá að allir keppendur náðu að vinna skák og komast á blað! Oft er einhver hræðsla við að ná ekki að vinna skák sem stoppar keppendur að mæta á slík mót. Góður og breiður keppendafjöldi á ýmsum getustigum er mikilvægur fyrir kvennaskákina og vonandi verður hægt að gefa í í framtíðinni og hafa enn fjölmennara mót!