Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson kláraði Skákþing Reykjavíkur með stæl í lokaumferðinni sem að þessu sinni fór fram á fimmtudaginn vegna óveðursins sem geysaði á miðvikudeginum. Vignir lagði afmælisbarnið Björn Hólm Birkisson að velli og kórónaði glæsilegan sigur á mótinu með 8,5 vinning af 9. Oliver Aron Jóhannesson nappaði titlinum skákmeistari Reykjavíkur af Ingvari sem lék illa af sér gegn Birki Ísaki.
Vignir var að sjálfsögðu búinn að tryggja sér titilinn en vildi klára með stæl og gerði það. Aðgerðir Vignis á drottningarvæng voru hraðari en aðgerðir hvíts á kóngsvæng. Enn og aftur sýndi Vignir góðan og metnaðarfullan undirbúning og er að uppskera eins og hann sáir.
Baráttan um Skákmeistara Reykjavíkur var spennandi. Ingvar Þór (sem skrifar hér um sig í þriðju persónu) hafði hvítt gegn Birki Ísak og miðaði sinn undirbúning aðallega að drottningarpeðsbyrjunum. 1.e4 hjá Birki kom því strax á óvart og hér strax kominn smá klemma vegna þess hversu vel menn þekkja til. Ingvar veit mikið um byrjanir Vignis og Birkir er aðalaðstoðarmaður Vignis og veit því meira. Ingvar bjóst við uppskiptaafbrigðinu og líklegast því sem mælt er með á VignirVatnar.is.
Ingvar mat stöðuna þannig að hann yrði að vinna þar sem hann tapaði alltaf á oddastigum útaf færri tefldum skákum. Ingvar valdi því vafasamt afbrigði „El Columpio“ þar sem svartur býður hvítum upp á að rústa peðastöðu svarts í skiptum fyrir einhverskonar dýnamíska möguleika.
Tölvurnar sýna oft athyglisverða möguleika bakvið tjöldin. Ef Birkir hefði valið 18.exd6 Hxc3 19.dxe7 á svartur aðeins einn leik sem bjargar taflinu.
19…He3!! hér er skemmtilegur tölvuleikur og taflið helst í dýnamísku jafnvægi.
Segja má að baráttan um Skákmeistara Reykjavíkur hafi ráðist af slæmri skákblindu. Herbragð Ingvars hafði að mörgu leyti heppnast þokkalega. Á borðinu var tvísýn staða þar sem öll úrslit voru í boði. Síðasti leikur hvíts var Bf4-g5 og eftir t.d. 23…h6 í stöðunni hér getur allt gerst.
Ingvar hélt að hann hefði séð sér leik á borði 23…Hxb2?? þar sem hvítur getur ekki lokað skálínunni eftir 24.Kxb2 Rb5. Það að hvítur hafi verið nýbúinn að leika biskupnum „áfram“ á skálínunni gerði það að verkum að hér var á ferð algjör skákblinda og hvítur á hér einfaldlega 25.Bd2 og skákinni er lokið. Ingvar lék nokkrum leikjum til að reyna að mynda moðreyk en einfaldlega of mikið lið farið í hafið.
Nú dugði Oliver jafnteflið og hafði það fyllilega í hendi allan tímann. Eftirá að hyggja hefði Ingvar kannski átt að treysta betur á að Benedikt stæði vaktina og tefla traustar en það er auðveldara að vera vitur eftirá…sérstaklega þegar og ef það er í boði!
Bárður Örn nýtti sér „vinningaleysi“ efstu manna til að lauma sér í þriðja sætið með sigri á Gauta. Gauti gæti ekki nægjanlega vel að öryggis kóngsstöðu sinnar og svartur tók yfirhöndina í miðtaflinu og sigldi vinningnum heim.
Úrslit 9. umferðar:
Nokkuð um óvænt úrslit í lokaumferðinni og miklar sviptingar.
Lokastaðan:
Vignir sigurvegari mótsins, Birkir Ísak átti mjög þétt mót og tekur 2. sætið og góðan stigagróða. Birkir á klárlega að tefla meira! Bárður tók 3. sætið en Oliver Aron Jóhannesson er Skákmeistari Reykjavíkur.
Baráttan í stigaflokkaverðlaunum var hörð en endaði eftirfarandi:
Aukaverðlaun A:
Arnar Milutin
Aukaverðlaun B:
Josef Omarsson
Aukaverðlaun C:
Haukur Víðis Leósson
Aukaverðlaun D:
Oddur Sigurðarson
Verðlaunaafhending verður á Hraðskákmóti Reykjavíkur á morgun en mótið hefst klukkan 13:00.