Fyrri umferð laugardagsins, fjórða umferð á 20 ára Afmælismóti skákfélagsins Goðans er nú lokið. Að henni lokinni eru þeir Björn Þorfinnsson og Þröstur Þórhallsson enn í efsta sæti eftir jafntefli í innbyrðis skák. Bárður Örn Birkisson slóst í hópinn með góðum sigri gegn Hilmi Frey á þriðja borði.
Þröstur og Björn tefldu skoska leikinn en snemma ákvað Þröstur að spara orkuna og slíðruðu þeir sverðin mjög snemma. Þá þegar höfðu Bragi og Simon undirritað friðarsamninga og reykt friðarpípu. Af virðingu við verndarsamning Cheyenne-indjána verða þessar skákir ekki birtar hér!
Fyrsta „alvöru“ skákin til að klárast á efstu borðum var hjá Davíð Kjartanssyni og Stefáni Steingrími Bergssyni. Stefán tefldi af krafti með svörtu og gerði tilraun til að sækja mjög glannalega á Davíð…Stefán líklegast ekkert verið að telja punktana í sókninni!
Staðan var í dýnamísku þokkalegu ójafnvægi en á ögurstundu missti Stefán greinilega af millileik Davíðs þegar hann lék 17…Bg7??
Stefán hafði greinilega gert ráð fyrir leppun hvíta riddarans en Davíð sá lengra. 18.Rc5+ og svaraði 18…Dxc5 með 19.Be6+ millileik og hvítur stendur til vinnings.
Dagur vann góðan tæknisigur á Arnari Milutin með svörtu. Arnar leyfði of mörg góð og hagstæð uppskipti fyrir Dag sem tefldi gegn stöku peði Arnars. Dagur stillti í umsátur og vann peðið eins og vera ber og fljótlega eftir það tókst honum svo að virkja umframpeðið með virkari kalla í endataflinu.
Sigurinn hjá Bárði sem fleytti honum í efsta sætið var lengsta skákin á efstu borðunum. Hilmir með svart fékk fína stöðu framan af tafli en Bárður tók við keflinu þegar hann náði sterku frípeði á d-línunni.
Lykilstaðan var hér þar sem Hilmir gat enn haldið í horfið með 27…Dxh5! hann lék þess í stað 27…Df5? en stóri munurinn liggur í að þar helst h-peð hvíts og tekur g6 reitinn eftir bestu línuna 28.Bxd8 Dxh3 29.gxh3 Bc2 30.Hc1 Hxd8 31.Hxc2 Hxd6. Þessi staða með peð á h5 er unnin á hvítt útaf vandræðum með riddarann á f8 en án peðsis (27…Dxh5) þá er staðan einungis örlítið betri á hvítt.
Sigurinn reyndist nokkuð auðfenginn fyrir Bárð eftir þessi viðskipti.
Jón Kristinn blandaði sér eilítið í baráttuna með því að leggja Birki sem lagði of mikið á kóngsvænginn sinn of snemma.
Markús Orri hefur haft hægt um sig en minnti á sig með því að ná sigri gegn Símoni. Markús þurfti lengast af að verjast á meðan Símon reyndi að píska svörtu stöðuna til en varnir Markúsar héldu og hann tók sín færi þegar hann fékk þau.
Úrslit umferðarinnar:
Friðsælt á allra efstu borðum en vinningarnir telja ansi drjúgt í svona stuttu móti og strákarnir sem unnu með 2 vinninga og fara í 3 vinninga mega vel við una.
Staðan:
Þrír efstir með 3,5 vinning en ansi þéttur pakki með 3 vinninga. Ætla má að mótið vinnist á 5 vinningum svo að baráttan gæti orðið ansi hörð í lokaumferðunum tveimur!
Pörun fimmtu umferðar:
Skemmtilegar viðureignir í fimmtu umferðinni:
Björn og Bárður mætast í kynslóðaskák. Björn hefur einsett sér að semja við menn á ákveðnu aldurs- og þyngdarstigi en leggja þá ungu að velli. Bárður er í feiknaformi…spennandi skák framundan þar sem Björn mun tefla eins og engill eða fara niður eins og hundur…ekkert jafntefli hér!
Simon og Þröstur mætast í stórmeistaraslag. Ólíkir stílar, allt getur gerst.
Markús Orri fær verðugt verkefni eftir sigurinn gegn Símoni, mætir stórmeistaranum Braga Þorfinns.
Dagur og Davíð mætast í IM-slag og Jón Kristinn hefur svart gegn Jóhönnu Björgu.
Enginn vogaði sér að tefla Dxd4-d3 varíantinn í sikileyjarvörn í fyrri umferð dagsins og vonandi er það eitthvað sem koma skal!
Fimmta umferðin hefst klukkan 16:00. Áframhaldandi fjör í Mývatnssveit við stórglæsilegar aðstæður.
Styrktaraðilar Afmælismóts Goðans 2025
Þingeyjarsveit
Sel-Hótel Mývatn
Landsvirkjun
Sparisjóður Suður Þingeyinga
Framsýn
Jarðböðin
HSÞ
GPG