
Íslensku keppendurnir á EM einstaklinga í Rúmeníu áttu ekkert sérstakan dag í áttundu umferðinni í dag. Vignir Vatnar Stefánsson varð að lúta í dúk gegn Pancevski en Aleksandr Domalchuk-Jonasson varð að sætta sig við jafntefli í sinni skák gegn stigalægri Þjóðverja.
Vignir hafði hvítt gegn Norður-Makedónanum Filip Pancevski sem hefur lengi verið þeirra fyrstaborðs-maður í landsliðskeppnum. Pancevski er þó nokkuð stigalágur þessi dægrin miðað við getu með aðeins 2421 elóstig. Vignir virtist nokkuð vel undirbúinn, byrjunin var nokkuð óræð en hvíta staðan stóð vel í tölvureiknum.
Í miðtaflinu fór að halla undan fæti og Pancevski virtist vera að sigla vinningnum heim. Í endataflinu skipti hann hinsvegar vitlaus upp á hrókum og Vignir allt í einu með unnið tafl í tímahrakinu. Í 37. leik á ögurstundu fann Vignir ekki réttan kóngsleik til að hjálpa við að stöðva svörtu peðin og tækifærið rann honum úr greipum.
Skák Aleksandrs var ekki í beinni en líklegast er hann ekki fullkomlega sáttur við jafnteflið með hvítu mönnunum.
Eftir umferðina hafa þeir báðir 4 vinninga af 8 mögulegum. Pörun næst umferðar er:
Keppendur á mótinu í ár eru alls 375 og er Vignir númer 69 í stigaröðinni en Aleksandr númer 179. Heimamaðurinn Bogdan-Daniel Deac (2692), sigurvegari á síðasta Reykjavíkurskákmóti, er stigahæstur og eins er Alexey Sarana (2689) alltaf líklegur en fyrir aðeins 2 árum vann hann þrjú mismunandi evrópumót á sama ári þ.e. með mismunandi tímamörkum og bæði einstaklings- og liðakeppni! Tefldar eru 11 umferðir og mikið er í húfi en 20 efstu skákmenn mótsins komast á Heimsbikarmótið sem fram fer síðar á þessu ári.