Eins og fram hefur komið á Skak.is hefur sveit frá Íslandi tekið þátt á Chessmates mótinu í York á Englandi. Ísland er að taka þátt á mótinu í annað skipti og í bæði þessi skipti sem gestur. Chessmates samanstendur nefnilega af föstum meðlimum sem taka þátt í mótunum en sveigjanleiki er til að bjóða gestaliðum í hvert mót. Ísland hefur nú verið boðið að gerast meðlimur sem var að sjálfsögðu samþykkt!
Hefðbundinn hátíðarkvöldverður fyrir fulltrúa hvers liðs fyrir sig fór fram í gærkvöldi og þar bauð Jurriaan Kien, forseti Chessmates samtakanna, Íslendinga formlega velkomna í Chessmates-fjölskylduna. Boðið var að sjálfsögðu þegið og er Ísland því komið í hóp fastra liða sem ekki aðeins taka þátt á hverju móti heldur skuldbinda sig einnig til að halda mót sjálf.

Chessmates samtökin leggja mikla áherslu á að skapa tækifæri fyrir unga skákkrakka til að keppa á alþjóðlegum vettvangi – sérstaklega þá sem annars hefðu ekki haft möguleika á slíku. Einnig er mikið lagt upp úr að skapa tengsl milli keppenda, þar sem ungmennin kynnast og eignast vini í gegnum skákina, sanna „Chessmates“!
Samtökin reyna jáfnframt að halda mótin á skemmtilegum og sögufrægum stöðum. Auk þess að tefla í hinu sögufræga Guildhall í York hafa fyrri mót verið haldin á áhugaverðum stöðum eins og í Eiffel-turninum og mörgum fleirum skemmtilegum keppnisstöðum.

Ísland er því komið í hóp með: Rotterdam, Sachsen-Anhalt (hérað í Þýskaland), Írlandi, Eistlandi, Englandi og síðast en ekki síst, Mónakó. Sjö aðilar og því sveigjanleiki fyrir mótshaldara hverju sinni að bæta við einu gestaliði sem gæti t.d. verið nágranni mótshaldara.
Nánar má kynna sér Chessmates á heimasíðu samtakanna: chessmatesinternational.com.