Íslensku krakkarnir héldu áfram keppni á Tólfta Chessmates mótinu í dag. Farið var yfir gang mála í fyrstu umferðunum hér -> Jákvæðni í Jórvík | Skak.is og áður var búið að kynna mótið hér -> Ísland tekur þátt í Chessmates í annað skiptið | Skak.is
Tvær umferðir fóru fram í dag, eins og í gær. Fyrri umferðin var lokaumferðin í riðlinum en fyrir hana var ljóst að Ísland kæmist ekki í Meistaragrúppuna heldur færu í Áskorendagrúppuna ásamt tveimur neðstu liðum í hinum riðlinum.
Fyrri viðureign dagsins var gegn sveit Írlands. Lokaniðurstaðan varð tap 4-6. Stríðsgæfan var ekki okkar megin. Töpin á 8. og 10. borði voru svekkjandi þar sem í báðum skákum fengu okkar keppendur frábærar stöður. Katrín fylgdi frábærlega forskrift gegn Benkö bragði og fékk yfirburðatafl. Einn til tveir nákvæmir leikir og svartur er með strategískt tapað tafl en Katrín gleymdi sér örskotsstund og lék sig í mát.
Tristan Nash tefldi sömuleiðis eins og herforingi framan af skák. Fékk fína forskrift gegn kóngsindverja með Averbakh-afbrigðinu. Svipað og hjá Katrínu vantaði aðeins meiri keppnisreynslu til að klára dæmið en til þess er leikurinn gerður. Innlagnir í reynslubankann eru þónokkrar í þessari ferð!
Gunnar Erik kláraði snaggaralega í sinni skák.
34.He7!? er skemmtilegur. Leikurinn er ekki „bestur“ en mjög stíllhreinn taktískt. Hvítur vinnur lið í öllum línum og vinnur auðveldlega. Sá írski lék strax af sér í kjölfarið eftir 34…Hxe7 35.Dxc6! Hd7?? 36.c8=D+
Seinni umferðin var fyrsta viðureignin í Áskorendagrúppunni. Inni í hana fór tapið gegn Írum…menn taka stigin með eins og í milliriðlum í handbolta. Við mættum sveit heimamanna í York. Fyrirfram hefði Ísland átt að ná í sigur á pappírnum góða, stigahærri á flestum borðum.
Þegar við mátuðum í 10 leikjum á einu af fáum borðum þar sem við vorum stigalægri hefði mátt halda að hagur okkar væri að vænkast!
Níundi leikur heimamannsins 9…b5???? var ekki til útflutnings þrátt fyrir sterkar víkingarætur í Jórvík.
Því miður dugði þessi meðbyr ekki til. Guðrún Fanney hélt áfram fínu gengi, náði að kreysta fram sigur í sinni skák úr dauðu jafntefli og hefur náð 3 vinningum af 4. Benedikt Þórisson vann einnig, sína fyrstu skák, en er þó taplaus sem er vel af sér vikið á fyrsta borði! Þrjú jafntefli náðust til viðbótar en aðrar skákir töpuðust, og þar með viðureignin með minnsta mun.
Í lokaumferðinni á morgun mætir Ísland liði Mónakó. Viðureignin er hrein úrslitaviðureign um 7. sætið á mótinu.
Kvöldið fór í kvöldverð keppenda og að honum loknum var hraðskákmót sem nokkrir íslensku krakkana tóku þátt í.
Dagskráin á morgun:
- 23. mars:
- Kl. 8:45 – 5. umferð teflt við Mónakó
- Kl. 13:30 – Lokaathöfn
Skákir eru beint og hægt er að bæta við að um helgina er plönuð Twitch útsending á rás Natasha Regan, tengill hér fyrir neðan! Seinni umferðin var í beinni þar en verður að koma í ljós hvort að umferðin á morgun verði í lýsingu.