Frábær keppnissalur í Guildhall í York

Tólfta Chessmates mótið hófst föstudaginn 21. mars. Um er að ræða skemmtilega landakeppni eins og farið var yfir í frétt á Skak.is -> Ísland tekur þátt í Chessmates í annað skiptið | Skak.is

Tvær umferðir fóru fram, önnur gegn gríðarlega sterkri sveit en hin viðureignin var meira „fifty-fifty“.

Fyrri viðureign dagsins var gegn ógnarsterkri sveit Englendinga sem eru lang-sigurstranglegastir á mótinu. Englendingarnir voru stigahærri okkar keppendum á öllum borðum en íslenska liðið komst nokkuð vel frá þessari viðureign þrátt fyrir 3-7 tap.

Guðrún var sterk í dag og bauð upp á módelskák í a3 afbrigði Vignis Vatnars!

Guðrún Fanney náði í eina íslenska sigurinn í þessari umferð. Guðrún fylgdi alfarið fyrirmælum frá Vigni á VignirVatnar.is og gekk það ekki bara fullkomlega upp stöðulega heldur fékk Guðrún gott tímaforskot sem þýddi að hún hafði nægan tíma til að gera ekki mistök í úrvinnslunni…eitthvað smá hikst en sigurinn aldrei í hættu. Fréttir hafi borist að menn í Rúmeníu hafi jafnvel verið ánægðir með þessa skák hjá Guðrúnu!

Benedikt átti fín færi í sinni skák og hefði átt að ná í sigur í kjölfarið á góðum byrjanaundirbúningi. Adam og Sigurbjörn tefldu traust og gerðu jafntefli. Emilía Embla endaði á að tapa en átti mjög góða skák þar sem byrjunin gekk vel og miðtafls-taflmennskan skilaði unnu tafli en á ögurstundu rann sigurinn úr greipum. Tristan Nash kom sterkur inn með öruggu jafntefli.

Tristan Nash stimplaði sig vel inn!

Í seinni umferð dagsins var komið að aðeins meira viðráðanlegri sveit og skiptust liðin á að vera stigahærri mjög diplómatísk. Markús Orri náði í mjög góðan sigur eftir slæmt tap í fyrri umferðinni. Þrátt fyrir hraða yfirferð var Markús fljótur að tileinka sér skemmtilega byrjanahugmynd sem var skoðuð fyrir umferðina, leið sem Praggnanandhaa kynnti til leiks á síðasta áskorendamóti. Svartur brást ekki vel við, eyddi miklum tíma og líkt og hjá Guðrúnu í fyrri umferðinni sást að byrjanaundirbúningur og vinna skilar sér allaf á endanum!

Flott seinni skákin hjá Markúsi Orra!

Á endanum datt þessi viðureign ekki nógu vel fyrir íslenska liðið. Framan af viðureign skiptust liðin á höggum og staðan 3-3 snemma viðureignar. Stríðsgæfan reyndist ekki með íslenska liðinu að þessu sinni og nokkrar skákir sem hefðu vel getað endað okkar megin snerust á punktinum Eistunum í vil. Niðurstaðan 3,5-6,5 tap.

Margt jákvætt þó í taflmennsku íslenska liðsins og margir að ná sér í nýja og dýrmæta reynslu. Guðrún vann aftur og hefur 2 af 2 og gaman að sjá hvað Tristan Nash kemur sterkur inn!

Dagskráin framundan er eftirfarandi

  • 22. mars:
    • Kl. 9:30 – 3. umferð mætum írsku liði
    • Kl. 14:30 – 4. umferð teflt við lið úr hinum riðlinum TBD
    • Um kvöldið – Gala kvöldverður og hraðskákmót
  • 23. mars:
    • Kl. 9:30 – 5. umferð teflt við lið úr hinum riðlinum TBD
    • Kl. 13:30 – Lokaathöfn

Skákir eru beint og hægt er að bæta við að um helgina er plönuð Twitch útsending á rás Natasha Regan, tengill hér fyrir neðan!

- Auglýsing -