
Íslensku keppendurnir á EM einstaklinga í Rúmeníu hafa ekki átt neitt sérstakt mót en hafa gert heiðarlega tilraun til að ná góðum endasprettï. Vignir Vatnar Stefánsson hefur náð 1,5 vinningum í síðustu tveimur umferðum en Aleksandr Domalchuk-Jonasson er svolítið fastur í jafnteflisgírnum.
Í 9. umferð var pörunin eftirfarandi:
Vignir sýndi mikinn sigurvilja með því að fara strax út af alfaraleiðum með 4…Bd7 í kóngsindverjanum. Vignir fékk örlítið betra tafl en líklega aldrei nægjanlega mikið til að pressa andstæðing sinn. Á endanum yfirpressaði Vignir að einhverju leiti en sem betur fer bauð hvítur jafntefli þegar staðan var að snúast honum í vil. Fæddur hræddur!!
Aleksandr gerði líka jafntefli í sinni skák en hún var ekki sýnd beint!
Í tíundu umferð náðu strákarnir ágætis úrslitum. Vignir vann með hvítu en Aleksandr gerði jafntefli.
Vignir sýndi fína þrautseigju í sinni skák og kreysti út vinning í hróksendatafli.
Aftur, var skák Aleksandrs ekki í beinni en niðurstaðan var aftur jafntefli.
Að loknum 10 umferðum hefur Vignir 5,5 vinning en Aleksandr 5 vinninga. Báðir eru þeir að tapa elóstigum en klára vonandi vel í lokaumferðinni til að minnka skaðann!
Matthias Bluebaum og Daniil Yuffa eru efstir með 8 vinninga fyrir lokaumferðina. Bluebaum vann innbyrðisviðureign þeirra og því líklegt að jafntefli í lokaumferðinni nægi honum til vinnings á mótinu. Sjö skákmenn hafa 7,5 vinning en þar sem Bluebaum hefur hvítt í lokaumferðinni verður hann að teljast ansi líklegur!
Keppendur á mótinu í ár eru alls 375 og er Vignir númer 69 í stigaröðinni en Aleksandr númer 179. Heimamaðurinn Bogdan-Daniel Deac (2692), sigurvegari á síðasta Reykjavíkurskákmóti, er stigahæstur og eins er Alexey Sarana (2689) alltaf líklegur en fyrir aðeins 2 árum vann hann þrjú mismunandi evrópumót á sama ári þ.e. með mismunandi tímamörkum og bæði einstaklings- og liðakeppni! Tefldar eru 11 umferðir og mikið er í húfi en 20 efstu skákmenn mótsins komast á Heimsbikarmótið sem fram fer síðar á þessu ári.