Skákdeild KR hélt fjölmennt barnaskákmót síðast liðinn laugardag 22. mars í samfélagshúsinu að Aflagranda 40. Mótshaldið tókst á allan hátt mjög vel. Boðið var upp pizzuveislu fyrir keppendur og aðstandendur á meðan verið var að koma mótinu af stað. Tæplega 25 stórar pizzur og slatti af brauðstöngum hurfu í þeim atgangi. Þegar allir voru orðnir mettir og skráningu lokið, hófst mótið.
Keppt var tveimur flokkum 1.–3. bekkur og 4-8. bekkur. Yngri flokkurinn var heldur fjölmennari með 29 keppendum en sá eldri var með 22 keppendum. Að þessu sinni sigruðu stelpur í báðum flokkum sem hingað til hefur ekki verið mjög algengt á skákmótum.
I eldri flokki vann Emilía Sigurðardóttir með fullu húsi, 7 vinningar í 7 skákum. Annar var Emil Finnsson Fenger með 6 vinninga og í þriðji sæti var Liam Nam Tran með 5 vinninga. Gunnar Þór Þórhallsson var einnig með 5 vinninga en færri oddastig.
Í yngri flokki var keppnin enn jafnari því þrír keppendur enduðu allir með 6 vinninga af 7 mögulegum. Eftir stigaútreikning hreppti Miroslava Skibina fyrsta sætið, Dagur Sverrisson annað sætið og Eiður Jökulsson það þriðja.
KRingar eru mjög sáttir við mótslok með tvo keppendur í verðlaunasætum Miru og Emil. Ekki síður eru mótshaldarar ánægðir með fjölda keppenda sem komu víðs vegar af höfuðborgarsvæðinu. Allir krakkarnir voru stilltir og prúðir og sér og sínum til mikils sóma.
Nánari úrslit má sjá á eftirfarandi síðum: