Sigurbjörn að tafli á Skákþinginu. Mynd: Heimasíða TR.

Sjötta umferð Öðlingamótsins lauk nú í gærkvöldi en þar tryggði Sigurbjörns Björnsson sér sigur á mótinu með því að leggja Sigurlaugu Friðþjófsdóttur að velli í hörkuskák. Ingvar Þór Jóhannesson lagði Lenku Ptacnikovu að velli í mikilil baráttuskák á öðru borði. Sigur Ingvars dugði ekki til þar sem Sigurbjörn hefur alltaf betur á oddastigum og hefur því tryggt sér sigur á mótinu.

Sigurbjörn hafði hvítt gegn Sigurlaugu en lenti í vandræðum snemma í miðtaflinu en Sigurlaug stýrði svörtu mönnunum ansi vel og fékk mun betra tafl á kafla. Fljótfærnisdráp á eitruðu peði á b2 kostaði skiptamun. Svartur gat enn barist en jafnt og þétt hrakaði svörtu stöðunni og Sigurbjörn sýndi styrk sinn.

Skák Lenku og Ingvars var mikil baráttuskák. Ingvar tók stöðulega áhættu með því að drepa snemma á f3 og gefa biskupaparið fyrir tvípeð. Hvíta staðan betri en ákveðið ójafnvægi sem myndast. Báðir keppendur voru í tímahraki enda staðan lengst af óræð.

Ingvar virtist fá betra tafl seint í miðtaflinu og vann peð á kóngsvængnum. Peð hvíts á a-línunni átti hinsvegar opna flugbraut og varð svartur að gefa biskup sinn fyrir peðið. Svartur var ekki í neinni taphættu í endataflinu sem framundan var en með riddara á borðinu og tímapressu var alltaf hætta á að hvítur myndi missa fótana, sem gerðist.

Jóhann Jónsson hélt sér í baráttu um efstu sætin með góðum sigri með svörtu mönnunum gegn Unnari Ingvarssyni. Í endataflinu fylgdi svartur „Capablanca-reglunni“ svokölluðu betur. Peð hans voru á hvítum reit en hvítu peðin á svörtum reitum en báðir höfðu svartreita-biskup. Veikleikarnir kostuðu sitt á endanum og Jóhann braust í gegn í vel útfærðri skák.

Sigurbjörn hefur 5,5 vinning og er sigurvegari mótsins sama hvað gerist í lokaumferðinni. Ingvar hefur 4,5 vinning en svo koma Lenka og Jóhann með 4 vinninga.

Þór mætir Sigurbirni í lokaumferðinni, Jóhann teflir við Ingvar og Kristján Geirsson gegn Lenku. Lokaumferðin fer fram miðvikudaginn 2. apríl næstkomandi.

- Auglýsing -