Íslensku keppendurnir á EM einstaklinga í Rúmeníu hafa lokið leik. Stórmeistarainn Vignir Vatnar Stefánsson átti ágætis endasprett, vann skákina í lokumferðinni og þar með tvær síðustu skákirnar. Alþjóðlegi meistarinn Aleksandr Domalchuk-Jonasson virtist eiga minn eftir á tanknum þegar leið á mót og endaði á tapskák í lokaumferðinni.
Vignir náði að grugga vatnið snemma með svörtu í enskum leik gegn FM Niels Willems (2406) rúmlega tvítugum Frakka. Vignir fékk fljótlega betra í miðtaflinu og vann svo peð og stýrði vinningnum heim nokkuð örugglega.
Aftur var skák Aleksandrs ekki í beinni útsendingu.
Þjóðverjinn Matthias Bluebaum varð Evrópumeistari með 8,5 vinning en hafði betur eftir stigaútreikning við landa sinn Rasmus Svane og Ísraelann Maxim Rodhstein. Þetta er annar sigur Bluebaum á Evrópumóti en hann var einmitt Evrópumeistari þegar hann tók þátt í Heimsmeistaramótinu í Fischer Slembiskák sem fram fór á Íslandi.
Endasprettur Vignis dugði í smá endurkomu stigalega. Vignir lenti snemma í jafnteflisgír gegn hörðum ungum stigalægri andstæðingum og tap í fimmtu umferð var ákveðinn skellur upp á vonir um árangur á mótinu. Vignir endar á að tapa 17 stigum á mótinu en segir kannski sitt að hann tefldi aldrei við stigahærri andstæðing á mótinu og mætti engum stórmeistara. Þessi Evrópumót eru grjóthröð og byrjunin skiptir greinilega öllu upp á að fá „réttu“ andstæðingana.
Aleksandr tapaði líka 17 stigum á mótinu. Framan af móti var hann nokkurn veginn að tefla á pari og í fjórðu og fimmtu umferð gerði hann sterk jafntefli en tap í sjöttu umferð voru vatnaskil. Eftir það lenti Aleksandr í jafnteflishrinu gegn ungum stigalægri andstæðingum og komst ekki upp úr því.
Keppendur á mótinu í ár voru alls 375 og var Vignir númer 69 í stigaröðinni en Aleksandr númer 179. Heimamaðurinn Bogdan-Daniel Deac (2692), sigurvegari á síðasta Reykjavíkurskákmóti, var stigahæstur og eins var Alexey Sarana (2689) alltaf líklegur, en fyrir aðeins 2 árum vann hann þrjú mismunandi evrópumót á sama ári, þ.e. með mismunandi tímamörkum og bæði einstaklings- og liðakeppni! Tefldar voru 11 umferðir og mikið var í húfi, en 20 efstu skákmenn mótsins komust á Heimsbikarmótið sem fór fram síðar á árinu.