Alþjóðlegi meistarinn Hilmir Freyr Heimisson tekur nú þátt á hraðmótinu SixDays Budapest sem klárast eins og nafnið gefur til kynna er klárað á sex dögum. Að lokinni sjöttu umferð sem kláraðist í dag hefur Hilmir 4 vinninga og er nokkurn veginn á pari stigalega.
Mótið er nokkuð hart, Hilmir er í raun einn af eldri keppendum mótsins og er það oft þannig að titilhafarnir eru skotspónn ungra titilveiðara, ákveðin áskorun að taka þátt í slíku móti!
Í fyrstu umferðinni vann Hilmir sigur gegn CM frá Indlandi, Mrithyunjay (2295). Skákin var baráttuskák þar sem Hilmir hafði hvítt. Slakur 29. leikur svarts „opnaði búðina“ á svörtu reitunum og Hilmir náði að brjótast í gegn með vönduðum útreikningum.
Bank Karacsonyi var andstæðingurinn í 2. umferð. Sá ungverski missteig sig illa og tapaði kalli í flækjum snemma tafl. Hilmir með útreikningana í lagi í þessum fyrstu umferðum!
Í þriðju umferð kom svekkjandi tap gegn hinum þrautreynda Zlatko Ilincic sem er hreinlega einn reyndasti stórmeistari heims og hreinlega vinnur við að vera skotspónn ungra skákmanna á áfangamótum í Ungverjalandi og hefur gert síðastliðna tvo áratugi!
Tap Hilmis var einstaklega svekkjandi þar sem hann var peði yfir í endatafli en seigldist of langt. Í biskupaendataflinu átti Hilmir svo jafntefli en missti af því í tímahraki og eftir framrás h-peðsins til h6 var öllu lokið.
Í fjórðu umferð vann Hilmir aftur kall snemma tafl. Andstæðingur hans misreiknaði sig og Hilmir sá lengra. Líklegast hefur svartur misst af exf3 og De1+ í einhverjum stöðum í flækjunum þar sem svarta staðan fer fram yfir bjarbrúnina.
Í fimmtu umferð lagði Hilmir gríðarlega mikið á svörtu stöðuna en slapp með skrekkinn svo að segja og jafntefli niðurstaðan.
Í skák dagsins í dag var Hilmir með betra tafl, vann peð en vantaði örlítið upp á tæknina til að klára dæmið. Svartur var seigur í vörninni og náði að stýra taflinu í jafntefli.
Hilmir er í 4. sæti með 4 vinninga á eftir Zlatko, Siddart og Md.
Tvöföld umferð er á morgun og svo lýkur mótinu 29. mars.