Það er bæði ánægjulegt og táknrænt að The New York Times, eitt virtasta dagblað heims, hafi birt ítarlega minningargrein um stórmeistarann Friðrik Ólafsson í prentaðri útgáfu sinni laugardaginn 13. apríl. Þar er farið yfir ævi Friðriks og ævistarfið, en hann skipaði lykilhlutverk í því að koma Íslandi á kortið í alþjóðlegu skáklífi.
Að íslenskur skákmaður, sem aldrei tefldi um heimsmeistaratitilinn, hljóti slíka umfjöllun í þessum sígilda bandaríska fjölmiðli undirstrikar enn og aftur þann sess sem Friðrik hafði í og umfram skákheiminn. Greinin minnir á góða arfleifð Friðriks – bæði sem skákmaður og embættismaður – og þá virðingu sem hann naut víða um heim.
Þetta er ekki aðeins viðurkenning á afrekum Friðriks, heldur líka viðurkenning á því hlutverki sem Ísland hefur gegnt í alþjóðlegri skáksögu – að miklu leyti fyrir tilstilli Friðriks sjálfs.
Greinina er hægt að nálgast á vef NY Times fyrir þá sem hafa áhuga en er þó læst bakvið áskrift sem hægt er að fá fyrir 2 bandaríkjadali.