Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Hér er birtist skákpistill Bændablaðsins þann 14. ágúst.
Undanfarin ár hafa skemmtiskákmót með léttri stemningu og góðum verðlaunum notið mikilla vinsælda hér á landi. Þá er teflt á veitingahúsum, kaffihúsum eða börum. Sjálfur sótti ég skákmót á kaffihúsinu Stofunni á árunum 2017 og 2018 sem Hrafn Jökulsson heitinn stóð fyrir. Í framhaldinu urðu ákveðin kynslóðaskipti í mótshaldinu. Félagsskapur sem ég kom að ásamt Elvari Erni Hjaltasyni, Arnari Inga Njarðarsyni og Héðni Briem, Miðbæjarskák, hélt í framhaldinu fjölda skákmóta hér og þar um miðbæinn, það stærsta í veislusal Iðnó. Miðbæjarskák er ekki dauð úr öllum æðum og hélt skákmót á bökkum Laugardalslaugar þann 5. júlí síðastliðinn.
Miðbæjarskák dró örlítið saman seglin en þá birtust nýir mótshaldarar, stjórnendur hlaðvarpsins Chess after Dark, þeir Birkir Karl Sigurðarson og Leifur Þorsteinsson. Með þeim kom meiri peningur í hraðskákmót en í stærstu innlendu kappskákmótin, að frátöldu Reykjavíkurskákmótinu. Þessi mót drógu því marga sterkustu skákmenn landsins að borðinu. CAD héldu nokkrar mótaraðir eins og Bankinn Bistro mótaröðina, mótaröð í Arena Kópavogi og önnur einstaka mót, eins og ýmis netskákmót og Íslandsmót í Fischer slembiskák. Einnigh héldu þeir skákmót í versluninni Blush.
Nýjasta viðbótin í þetta skemmtiskákmótastarf eru kröftugar mótaraðir stórmeistarans Vignis Vatnars, sem kenndar eru við vefsíðu hans, VignirVatnar.is. Þar ber hæst að nefna mótin á Snooker og Pool Lágmúla, og nú mótaröð á veitingastaðnum Le Kock, Tryggvagötu. Nú er fjórum mótum lokið af þeirri mótaröð og hefur sjálfur mótshaldarinn verið duglegastur að vinna mótin. Glitch in the Matrix kynni einhver að segja.
En talandi um matrixið. Sjálfum hefur mér sjaldan liðið eins mikið og ég væri staddur í hliðarveruleika og þegar ég tefldi í helli skammt frá Laugarvatni, en Kristófer Gautason og títtnefdnur Vignir stóðu fyrir mótinu. Einnig var teflt í gömlum fjárhúsum (sem einnig voru í helli) og sett var upp í tjald í rigningunni svo keppendur kæmust allir fyrir. Nánar verður fjallað um skákmótið í hellinum í tímaritinu Skák, en hægt er að gerast áskrifandi í gula kassanum á skák.is. Pistlahöfundur mælir með því.
Umsjón: Gauti Páll Jónsson
















