Í gær lauk á Bretlandi Kingston Invitational mótinu en það fór fram í þriðja skiptið. Kannski ekki merkilegasta mótið á skákdagatalinu en þó tók fjöldi titilhafa þátt og 38 skákmenn yfir 2000 elóstigum. Íslandsvinurinn og alþjóðlegi meistarinn Peter Large (2332) var meðal stigahæstu manna á mótinu. Ágætis mót en kannski ekki líklegt til að mæta á einhverjar fréttaveitur…eða hvað???
Í sjöundu umferð mættust þeir Billy Fellows (2006) og CM Peter Lalic (2181). Þeir voru kannski ekki líklegir til afreka á þessu móti og höfðu 2 vinninga að loknum 6 umferðum og skák þeirra á 16. borði. Fellows kannast greinarhöfundur ekki við en hann er örugglega ágætis náungi en þar sem hann er 14 ára þá er kannski eðlilegt að leiðir okkar hafi ekki legið saman á skákmótum! Peter Lalic hinsvegar hefur greinarhöfundur hitt í nokkur skipti og eins teflt svokallað „dual commentary“ á netinu einhverntímann á árdögum skákar á YouTube!
Peter er ágætis drengur og vel hægt að eiga við hann skynsamlegar samræður. Karl faðir hans, Bogdan Lalic, getur hinsvegar verið öllu erfiðari en hann hefur allt á hornum sér á netinu og hefur gert frasann „chess is shit“ að sínum. Hann semur reyndar yfirleitt jafntefli í innan við 15 leikjum af ótta við andstæðinga sína…ótti sem sjaldnast á rétt á sér! Þeir Þorfinnsson bræður gætu eflaust frætt okkur meira um Bogdan en á skákmóti sem þeir tefldu allir á var Bogdan að reyna að sannfæra þá um að „eðlufólkið“ væri búið að koma sér í allskonar stjórnunarstöður í heiminum….
En að skákinni, taflmennskan hófst klukkan 15:30 að staðartíma, seinni umferð dagsins en sú fyrri hafði hafist klukkan 10:00. Teflt var með umhugsunartímanum 90+30, þ.e. 90 mínútur á skákina og 30 sekúndur bætast við eftir hvern leikinn leik.
Peðastaðan lokaðist snemma og fyrstu uppskipti áttu sér ekki stað fyrr en eftir 18. leik svarts!
Lalic lék hér 18…Bb4 og bauð kaup til að veikja svörtu reitina í herbúðum hvíts. Við tökum eftir að peðastaðan er orðin nokkuð lokuð en svartur hefur klárlega meira rými á þessum tímapunkti.
Nú tók við furðulegur kafli í skákinni. Svartur gerði sér augljóslega grein fyrir því að hann hafði betra tafl en að sama skapi lá honum ekkert á að gera neitt og tók til við að skófla mönnum sínum í hringi og hvítur fann lítið betra að gera en færa kóng sinn fram og til baka frá g1 til h2 o.s.frv. og beið átekta.
Næsti peðsleikur var ekki fyrr en í 66. leik þegar svartur lék 66…c6.
Nú tók við annar hálfgerður þvælukafli þar sem ekkert gerðist….þar til í 114. leik
Hér lék svartur loks c6 peði sínu til c5, 114…c5 til að forðast 50-leikja regluna.
Í 139. leik bauð hvítur kaup á drottningum og við fengum loksins uppskipti númer tvö í skákinni!
Svartur tók kaupunum 139…Dxd2 en þá tók við annar fáranlegur kafli þar sem ekkert gerðist fyrr en í 183. leik svarts
Nú kom loks peðsleikur, 183…b5 sem losaði aðeins um stöðuna en þó ekki meira en það að næstu kaup voru ekki fyrr en í 206. leik!
Peter lék 206..Rb5 og hvítur tók á b5, 207.Rxb5
Í framhaldinu gerðist lítið á borðinu…en óvænt vandamál tók þess í stað við! Eins og nefnt var hér að ofan hófst umferðin 15:30 og tímamörkin voru 90+30. Í stuttu máli þýðir það að eðlileg löng skák, 60-80 leikir væri að klárast um áttaleytið. Peter og Billy voru hinsvegar enn að og klukkan var komin vel yfir níu um kvöldið sem var stórt vandamál þar sem staðurinn þar sem teflt var á LOKAR klukkan 22:00 og ekkert múður með það!
Nú varð að grípa til örþrifaráða og skákin var sett í bið eftir 203 leiki! Biðskákir eru enn löglegar hjá FIDE en eru einfaldlega nánast ekkert notaðar þar sem það er nokkuð tilgangslaust í flestum tilvikum.
Keppendur mættu 08:15 aftur á skákstað og urðu að klára skákina áður en 8. umferðin hæfist klukkan 10:00! Skákin var komin vel yfir 200 leiki, svartur enn með betra en ekki enn búinn að brjótast í gegn! Upp úr 210. leik er greinilegt að þolinmæðin er á þrotum, mögulega bæði þolinmæði keppenda og annarra keppenda og mótshaldara gagnvart skákinni.
Hlutirnir fóru nú loks að gerast og eftir 219. leik Lalic, 219…b2 getur hvítu með góðu móti gefið.
Það var hinsvegar hér sem að mati greinarhöfundar að „Leikhús Fáranleikans“ hófst fyrir alvöru, ef það var ekki þá þegar hafið. Næstu leikir eru ekki bara óþarfi, heldur algjör þvæla. Á þessum tímapunkti var ljóst að báðir keppendur höfðu það sama í huga…
Í 268. leik fellur síðasti maður hvíts eftir 268…Dxh5. Tilviljun? Kannski en líklegast ekki þegar haft er í huga að lengsta keppnisskák allra tíma er 269 leikir! Menn sem hafa gaman af spurningakeppnum, og kannski skák „pöbb-kvissum“ vita að Nikolic og Arsovic eiga þetta met en skák þeirra frá 1989 var einmitt 269 leikir áður en leikar skildu jafnir.
Fellows og Lalic „slógu“ það met hinsvegar með þessu leikriti að morgni 16. ágúst 2024 og gera þar með tilkall til að komast í sögubækurnar. Greinarhöfundi finnst þó tilgerðin full mikil eftir 219. leik svarts og á bágt með að samþykkja þetta sem einhverskonar met. Við látum skákina fylgja hér með í heild sinni…. (hægt er að halda inni hægri ör á lyklaborðinu til að „fljúga“ yfir skákina!)
Eins og áður segir, fáranleikinn er full mikill til að taka skákina alvarlega sem einhverskonar met þó vissulega hafi hér verið á ferð alvöru kappskák. Ekki er verið að gefa í skyn að óhreint mjöl hafi verið hér í neinu pokahorni. Mjög líklegt er að Peter hafi gert sér grein fyrir að skák þeirra væri nálægt metinu. Á móti er ekkert ólíklegt að hinn ungi skákmaður Billy Fellows sé af þeim skóla ungra skákmann sem hefur ekki enn lært þá list að gefast upp á réttum tíma og tefla einfaldlega skákina í botn.
Skák Nikolic og Arsovic var mun eðlilegri. Hvítur vinnur mann en svartur hefur peð sem bætur. Það tekur hvítann dágóðan tíma að plokka peðin af svörtum en skákin endar í hrókur og biskup gegn hróki. Það sem vinnur eilítið á móti þessari skák sem met er hinsvegar að H+B gegn H er teflt í 100 leiki. Það á sér þó skýringar því að það sem er í dag 50-leikja reglan var á þessum tíma 100-leikja reglan. Met þeirra Nikolic og Arsovic hefði því ekki staðið hefði skákin verið tefld einhverjum árum seinna…en eftir stendur að skák þeirra er þó mun eðlilegri og miðað við reglur þess tíma var allt eðlilegt.
Í þessu samhengi hefur greinarhöfundur gaman af því að rifja upp lengstu kappskák sem hann sjálfur hefur teflt. Árið 2017 var þegar byrjað að taka til í salnum þegar ég var enn að reyna að kreysta eitthvað peði yfir gegn Birni Jónssyni (TG) í deildakeppninni. Möguleikarnir voru ekki miklir en þeir voru þó til staðar. Björn varðist mjög vel og missti aldrei einbeitinguna. 160 leikir takk fyrir!
Náðum við Björn þar að höggva ansi nálægt íslenska metinu sem er enn, að því er greinarhöfundur best veit, skák Jón Garðars Viðarssonar og Jóhanns Hjartarsonar á Skákþingi Íslands 1994. Jón lét þar Jóhann svo sannarlega hafa fyrir vörninni í 180 leiki!
Eftir stendur spurningin…hver ætli sé lengsta keppnisskák allra tíma sem stenst bæði nútímareglur og inniheldur ekki einhverskonar leikrit með augljósu þegjandi samþykki beggja aðila???