Íslandsmeistarar Fjölnis hafa unnið síðustu 16 viðureignir í Úrvalsdeild og stefna á að verja titilinn frá í vor. Staðan er afar góð í "hálfleik"

Skáksveit Fjölnis A er nú spáð sigri annað árið í röð á Íslandsmóti skákfélaga. Staðan í hálfleik bendir til að spáin gangi eftir. Fjölnismenn eru með góða forystu í Úrvalsdeild og unnu allar sínar 5 viðureignir í fyrri umferð.

Níu skákmenn tefldu fyrir Fjölni í Úrvalsdeild þessa helgi. Sveitin er ung á mælikvarða flestra skáksveita. Sex liðsmanna eru 28 ára og yngri auk þess sem flottir liðsmenn okkar; Bragi, Sigurbjörn og Tómas hafa úthald á við unglinga.

Það vakti athygli að Oliver Aron Jóhannesson fyrrum NM meistari með Skáksveit Rimaskóla vann allar sínar skákir um helgina og var með stórmeistara árangur. Oliver Aron hefur nýlokið háskólanámi og virðist gallharður í að einbeita sér að skákinni að nýju. Bragi Þorfinnsson reyndist okkur strax sannur og góður liðsauki enda hefur hann fest traustum rótum í hverfinu okkar. Útlendingahersveit Fjölnis var líkt og í fyrra grjóthörð og gaman að heyra frá Litháunum að þeir taki Deildó fram yfir þýsku Búndes.

Skákdeild Fjölnis leiðir í Úrvalsdeild með 10 stig þremur stigum á undan næstu skáksveit, sveit Taflfélags Reykjavíkur sem vermir 2. sætið með 7 stig.

B sveit Fjölnis teflir í 2. deild og er í 1. sæti þegar mótið er rúmlega hálfnað

Fjölnismenn sendu 3 aðrar skáksveitir á Íslandsmótið og reyndust þær allar sigursælar. Sveit B deilir efsta sæti í 2. deild og C sveitin er taplaus eftir 4 umferðir í fjölmennri 4. deild.

Íslandsmót skákfélaga 2024 – 2025 er það langfjölmennasta frá upphafi og voru um og yfir 400 skákmenn og skákkonur mætt til að tefla fyrir sín félagslið þessa helgi. Ánægjulegt svo ekki sé meira sagt.

Fyrsta kvennasveitin á Íslandsmóti skákfélaga. Bekkjarsystur í 7. bekk Rimaskóla

Fjölnisstelpur 12 og 13 ára skrifuðu sig á blað skáksögunnar þegar þær mættu með fyrstu kvennasveitina á Íslandsmót skákfélaga. Þessar átta Rimaskólastelpur eru samt engir byrjendur því þær hafa á síðustu árum verið ósigrandi á öllum grunnskólamótum landsins og sótt skákmót erlendis. Stelpurnar sáu líka um alla veitingasölu á mótinu með góðum stuðningi foreldra sinna. Stóðu vaktina með sóma og söfnuðu um leið í keppnisferð erlendis, fjórða árið í röð. Við í Fjölni erum ein fjölskylda.

Skákdeild Fjölnis var eins og hér greinir frá á mikilli sigurbraut þessa helgi á Íslandsmótinu. Breiddin er mikil og styrkist með hverju ári. Við hjá búum við þann munað að enginn uppalinn skákari hefur skipt yfir í annað skákfélag. Fjölnir sendir öllum skákmönnum og skákkonum sem mættu á okkar heimavöll bestu kveðjur og þakkir fyrir heiðarlegar og ánægjulegar viðureignir og stjórn Skáksambandsins fyrir gott samstarf við allan undirbúning Íslandsmótsins

- Auglýsing -