Góð frammistaða Guðmundur Kjartansson hefur náð bestum árangri íslenska liðsins og er með 5 vinninga eftir sex umferðir. — Morgunblaðið/Gunnar Björnsson

Rússar náðu efsta sæti eftir sjöttu umferð af níu í opnum flokki Evrópumóts landsliða sem lýkur um helgina í Terme Cate í Slóveníu. Rússneska sveitin, sem ekki hefur tapað skák í keppninni, sigraði þá ungversku með minnsta mun, 2½:1½, í 6. umferð og náði 10 stigum. Næst koma sveitir Aserbaídsjan, Úkraínu, Spánar, Armeníu og Hollands með níu stig.

Íslenska sveitin tapaði þremur fyrstu viðureignum sínum. Það virtist ætla að rofa til á fimmtudaginn þegar útlit var fyrir sigur á Svíum en Jóhann Hjartarson missti þá niður unnið tafl í tap og niðurstaðan varð jafntefli, 2:2, og sveitin í 31. sæti af 39 þátttökuþjóðum.

Eitthvað vantar upp á öryggið. Átta tapskákir í fyrstu fjórum umferðunum og það gegn þremur fremur slökum liðum er óviðunandi.

Guðmundur Kjartansson hefur hlotið fimm vinninga af sex og á möguleika á borðaverðlaunum. Hinir eru talsvert frá sínu besta. En vonandi nær liðið sem ein heild að hrista af sér slenið því að góður lokasprettur getur þrátt fyrir allt skilað viðunandi niðurstöðu.

Besta frammistaða kvennasveitarinnar kom í 4. umferð þegar sigur vannst á sterkri sveit Tyrkja.

Lenka Ptacnikova skilaði þar sínu:

EM landsliða 2021; 4. umferð:

Ekaterina Atalik – Lenka Ptacnikova

Svartur er peði undir en sterkur riddari á d4 hlaut að gefa einhverja von. Sú tyrkneska sá sér nú leik á borði …

39. De7??

… og svarið kom um hæl …

39. … Bh3+!

Drottningin fellur og hvítur gafst upp.

Íslenska kvennaliðið var í 30. sæti.

Mér sýnist af umfjöllun um þetta mót að athygli áhorfenda víða um heim beinist nú mjög að Alireza Firouzjan en hann hefur hlotið 5½ vinning af sex mögulegum á 1. borði fyrir Frakka og er í 3. sæti á „lifandi“ stigalistanum rétt á eftir Liren Ding og Magnúsi Carlsen. Það er alltaf eitthvað að gerast í kringum hann.

Eftirfarandi skák er óvenjuleg að því leyti að hvítur hrókaði langt og opnaði síðan á kóngsstöðuna með því að þeyta peðunum fram. Síðan lét hann drottninguna af hendi:

EM landsliða 2021; 4. umferð:

Alireza Firouzja – Mustafa Yilmaz

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 a6 6. Be3 e5 7. Rb3 Be6 8. Dd2 Rbd7 9. 0-0-0 Be7 10. h3 b5 11. g4 Hc8 12. Kb1 Rb6 13. g5 Rh5 14. h4

Hvítur hefur oft teflt liði sínu svona fram með peðið á f3. Í þessari stöðu er g3-reiturinn hins vegar valdaður. Það gæti skipt máli.

14. … Rc4?! 15. Bxc4 Hxc4 16. Rd5 Bxd5 17. Dxd5 Dc7

Það er eitthvað bogið við stöðu svarts. Riddarinn á vart nokkurn reit né heldur biskupinn.

18. Rd2!

Skemmtilega leikið, 18. … Hxc2 er svarað með 19. Hc1 og svartur tapar c-línunni.

18. … Hc6 19. Hc1 0-0 20. c3 g6 21. Hc2 Hb8 22. Hhc1 a5 23. b4 Hc8?

Slakur leikur. „Vélarnar“ mæla með 23. … Rf4.

 

24. a4!?

Hugmyndin með þessum óvænta leik nær fram að ganga. En sennilega var 24. Dxb5 betra því nú á svartur hiklaust að leika 24. … bxa4 25. b5 Db8! en hann gengur í gildruna.

24. … axb4?

25. Dxc6! Dxc6 26. cxb4

Víki drottningin fellur hrókurinn á c8. Svartur fær engum vörnum við komið í endataflinu.

26. … Dxc2+ 27. Hxc2 Hb8 28. a5 Rf4 29. Hc7 Bd8 30. Hd7 Rd3 31. a6 Rxb4 32. a7 Ha8 33. Hxd6 Bc7 34. Hd7 Ra6 35. Hd5 Ba5 36. Rb3

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 20. nóvember 2021. 

- Auglýsing -