Guðmundur Kjartansson varð í kvöld Íslandsmeistari í þriðja sinn í einu mest spennandi Íslandsmóti sögunnar. Bragi Þorfinnsson og Helgi Áss Grétarsson urðu jafnir í 2.-3. sæti.

Alexander Oliver Mai og Pétur Pálmi Harðarson áunnu sér til að tefla í landsliðsflokki að ári.

Lokastaðan á Chess-Results.

Rétt er að líta yfir gang mála í algjörlega magnaðri lokaumferð á hreint fáranlega spennandi Íslandsmóti!

Vignir Vatnar Stefánsson – Dagur Ragnarsson

Byrjum á leiðindunum. Vignir og Dagur voru ekki með orku í að tefla í lokaumferðinni…nú eða vildu fylgjast með þeirri epísku baráttu sem framundan var. Þeir sömdu eftir að hafa endurtekið sömu stöðuna þrisvar. CAPS gefur þeim falleinkunn, verst teflda skák mótsins!

 

 

Margeir Pétursson – Gauti Páll Jónsson

Gauti mætti greinilega vel undirbúinn með kóngsindverjann í þetta mót. Hann tefldi hörkuskák gegn Margeiri þar sem hann tefldi vel og ef eitthvað var lágu sigurmöguleikarnir hans megin. Þriðja jafntefli Gauta við stórmeistara á þessu móti og kemst Gauti sérdeilis prýðilega frá sínum fyrsta landsliðsflokki.

 

 

Þröstur Þórhallsson – Björn Þorfinnsson

Þröstur og Björn tefldu skák sem skiptu litlu máli í toppbaráttunni en varð samt ein lengsta skák umferðarinnar. Þröstur stóð lengst af betur en náði ekki að sigla vinningnum heim.

 

 

Helgi Áss Grétarsson – Bragi Þorfinnsson

Helgi sagði í lýsingu á Ólympíumótinu á dögunum að Bragi ætti það til að leggja mikið undir í stöðum sem gengi ekki alltaf upp en einhvern veginn gengi það alltaf upp gegn honum!

Þessi lýsing var eiginlega aðeins of sannspá þar sem þetta er nákvæmlega það sem gerðist. Bragi reyndi að fá eins mikið og hann gat úr Nimzo-indverskri vörn og reyndi að klára hreint magnaðan lokasprett á mótinu.

Helgi missir líklega af skemmtilegri mannsfórn 15..Rxd5 og Bragi tekur algjörlega yfir frumkvæðið. Í framhaldinu lítur út fyrir að svarta staðan sé betri og hann með frumkvæðið algjörlega í sínum höndum. Mögulega var hægt að velja kröftugri leiðir einhversstaðar á leiðinni en Bragi bætti stöðuna jafnt og þétt ef undan er skilið einn séns sem Helgi fékk á að komast inn í skákina….allavega samkvæmt tölvuforritunum.

Eftir það hafði Bragi bæði stöðuna og tímamismun algjörlega sér í vil og sigldi vinningnum heim. Þegar Bragi var komið með unnið leit út fyrir að það stefndi í lokakeppni fjögurra skákmanna um Íslandsmeistaratitilinn þar sem Hjörvar var með gjörunna stöðu gegn Guðmundi.

 

 

Guðmundur Kjartansson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Hreint mögnuð skák sem réði úrslitum á Íslandsmótinu. Guðmundur virtist hafa betur í byrjanabaráttunni og hafði bæði betri stöðu og betri tíma.

Segja má að hann hafi “yfimenntað yfir sig” þegar hann lék 16.Hg5 sem líklega lagði of mikið á stöðuna. Hjörvar náði að hrókera og koma stjórn á stöðuna eins og hægt var og svo virtist sem of mikið af liði væri í dauðanum hjá Guðmundi og hann yrði að tapa liði. Fór svo að Hjörvar hafði skiptamun upp úr krafsinu en staðan var engu að síður enn gríðarlega flókin og allt í raun mögulegt.

Hjörvar missir líklega af sinni fyrstu sleggju hér þar sem 31…Hxe2 er “algjör killer” í stöðunni og svartur ætti að vinna. Leppunin á e-línunni verður illviðráðanleg.

Í tímahraki í 39. leik fellur Íslandsmeistaratitilinn nánast í skaut Guðmundar og aukakeppnin úr höndum Hjörvars þar sem allt hefði getað gerst. Hjörvar lék 39…Dxc4?? sem leyfði uppskipti og Guðmundur náði að halda endataflinu með virki (e. fortress).

39…Hxc4 hefði tryggt svörtum auðunnið tafl þar sem hvítur á í raun ekkert betra en 40.Bd4 en þá endar 40…Hd8 allar tilraunir hvíts til að halda taflinu gangandi.

Hjörvar reyndi eins og hann gat en allt kom fyrir ekki, ekkert líf var eftir í stöðunni, Guðmundur hélt velli og titilinn hans, í þriðja skiptið!

 

Útsending lokaumferðarinnar

Ásamt Ingvari Þór Jóhannessyni aðstoðuðu Sigurbjörn Björnsson og Jón Viktor Gunnarsson við skýringar dagsins.

 

Úrslit í 9. umferð

Ótrúleg spennandi lokaumferð sem endar þó aðeins á einni sigurskák þar sem Bragi Þorfinnsson gerði allt sem hann gat til að tryggja sér lokakeppni en hann þurfti að treysta á hagstæð úrslit sem duttu ekki með honum að þessu sinni.

 

Lokastaðan

Eftir gríðarlega spennandi lokaumferð náði Guðmundur Kjartansson að halda velli og sigra með 6.5 vinning af 9 mögulegum. Guðmundur var í forystu eða jafn öðru í forystu nánast allt mótið og tefldi heilt yfir mjög vel og er vel að sigrinum kominn.

Bragi nær öðru sæti eftir ótrúlegan lokasprett með jafn marga vinninga og Helgi Áss Grétarsson sem hann lagði að velli í lokaumferðinni.

Hjörvar var grátlega nálægt aukakeppni og heilt yfir óheppnastur af þeim sem voru að berjast um sigurinn. Hans tími kemur fljótlega!

Björn, Dagur og Vignir voru með fína spretti inn á milli og enda allir með 50%

Margeir og Þröstur vöknuðu í loks mót, díselvélin og lengi í gang.

Botnsætið kom í hlut Gauta Páls sem má engu að síður mjög vel við una enda langstigalægstur keppenda.

PGN skrá mótsins:

Islandsmot2020

 

Aðrir tenglar: