Seinni umferð Íslandsmóts skákfélaga hefur undanfarin ár farið svo nálægt dagskrá Reykjavíkurskákmótsins að úrslit og viðureignir hafa því ekki alltaf fengið verðskuldaða athygli. Eins og komið hefur fram vann Víkingaklúbburinn öruggan sigur með einu hæsta vinningshlutfalli í sögu keppninnar. Þess ber þó að geta að liðið sem hafnaði í 2. sæti, Huginn, fékk fleiri mótsstig og réði þar mestu sigurinn yfir Víkingaklúbbnum í lokaumferðinni. Greinarhöfundur deilir þeirri skoðun með fjölmörgum að löngu sé tímabært að taka upp stigafyrirkomulagið eins og í þýsku Bundesligunni, á ólympíumótum og víðar. Þetta er ekki sett fram til að gera lítið úr frammistöðu Íslandsmeistaranna sem unnu góðan sigur eftir þeim leikreglum sem í gildi voru.

Í síðustu viku skilaði Daði Ómarsson því ágæta verki að færa inn á skrár allar skákir 1. og 2. deildar. Þetta er mikið verk og þakkarvert og margar athyglisverðar skákir sjá nú dagsins ljós. Ein sú umtalaðasta var viðureign Margeirs Péturssonar á 3. borði gegn litháíska stórmeistaranum Kveinys í keppni TR við Víkingaklúbbinn. Eftir vafasama byrjun hitti Margeir á sterka leiki í flóknu miðtafli og var með unnið tafl þegar hér var komið sögu:

G4712NT3QÍslandsmót skákfélaga 2017-18, 7. umferð:

Margeir – Kveinys

36. Hf1!

Svartur vonaðist til að geta leikið 36. …Rgf3 en nú valdar hrókurinn f3- reitinn og hótar mátsókn.

36…. Rd7

Eini leikurinn en hvítur á 37. Hf7 og svartur er varnarlaus, t. 37…. Hc8 38. Dc3 eða 38. Hh7.

37. bxc6??

Hrikalegur afleikur sem ekki er hægt að skýra með öðru en æfingaleysi.

37….. Dxa5

– og hvítur gafst upp.

Hin þétta dagskrá mótsins gat af sér margar yfirsjónir jafnvel hjá hinum sterkustu meisturum. Þannig misstu Hannes Hlífar og Hjörvar Steinn vænlegar stöður niður í tap í viðureign Hugins og TR.

Ef hægt er að draga lærdóm af næstu skák þá er hann sá að enginn skyldi stóla á æfingaleysi hjá „gömlu brýnunum.“ Daði Ómarsson vann glæsilegan sigur á Nóa Síríus-mótinu í fyrra og vann þá t.d. Jón L. Árnason sem var eitthvað að þæfast í vængtafli. Við svipað tækifæri nokkrum áratugum fyrr – eftir 1. Rg1-f3 – stóð sjálfur Mikhael Tal yfir Jóni og sagði honum að þetta ætti hann ekki að gera. Af hverju? spurði Jón á móti. Vegna þess að þú ert kóngspeðsmaður, var svarið. Hvort töframaðurinn hafi vitjað Jóns fyrir eftirfarandi skákina liggur ekki fyrir en hann tefldi alltént í stíl meistarans:

Íslandsmót skákfélaga 2017-18, 7. umferð:

Jón L. Árnason – Daði Ómarsson

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 a6 5. Bd3 Bc5 6. Rb3 Be7 7. 0-0 d6 8. c4 b6 9. Rc3 Rf6 10. f4 0-0 11. Df3 Bb7 12. Bd2 Rbd7 13. Kh1 Dc7 14. Hae1 Hfe8

Allt eftir „bókinni“ en Jón hefur margsinnis meðhöndlað svipaðar stöður með góðum árangri.

15. Rd4 g6 16. Dh3 e5 17. Rf3 exf4 18. Bxf4 Rc5 19. Rg5 h6

G8312NQ0720. Rxf7!

Tilfinningin fyrir stöðunni svíkur ekki. Allir menn hvíts eru tilbúnir til sóknar.

20….. Kxf7 21. e5 Rxd3 22. Dxd3 dxe5 23. Bxe5 Had8 24. Rd5! Bxd5 25. cxd5 Hd6

Betra var 25…. Dc5 en „vélarnar“ segja mér að hvítur eigi að vinna eftir 26. b4! Dxb4 27. He4 Dc5 28. De2! o.s.frv.

26. Bxd6 Dxd6 27. He6! Db4 28. De2 Da4 29. De5 Dh4 30. d6

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 21. apríl. 

- Auglýsing -