Þrátt fyrir glæsilegan sigur Fabiano Caruana á áskorendamótinu í Berlín sem lauk í síðasta mánuði virðast ekki margir hafa trú á því að honum takist að velta Magnús Carlsen heimsmeistara úr sessi í heimsmeistaraeinvígi þeirra sem hefst í London þann 9. nóvember nk. Sigur hans á Grenke-mótinu breytir þar litlu um. Caruana varð vinningi á undan Carlsen, hlaut 6 ½ v. af níu mögulegum. Ferill Magnúsar og fyrri skákir hans við Caruana eiga sennilega stærstan þátt í þessari vantrú á möguleikum Bandaríkjamannsins.

Sé litið til sögu heimsmeistaraeinvíga síðustu 100 árin kemur hinsvegar í ljós að „áskorandinn“ virðist oftast hafa meðbyr þegar í stóra slaginn er komið. Úrslit fyrri viðureigna sem grundvöllur fyrir spádómi um úrslit hafa reynst óáreiðanlegt viðmið.

Emanuel Lasker var heimsmeistari í 27 ár en þegar hann háði einvígi sitt við Capablanca í Havana á Kúbu árið 1921 tapaði hann án þess að vinna eina einustu skák. Capablanca bar höfuð og herðar yfir helstu andstæðinga sína á næstu árum og var jafn öruggur og aðrir um sigur í einvíginu við Aljékín í Buenos Aires árið 1927. Aljékín vann einn óvæntasta sigur skáksögunnar, 6:3 með 25 jafnteflum. Hann varði titil sinn gegn óverðugum áskorenda, Efim Bogoljubov, sem gat hinsvegar tryggt nægt verðlaunafé sem var hlutverk áskorandans á þessum árum.

Árið 1935 var áskorandinn Max Euwe og vann 15½ : 14½. Tveim árum síðar tefldu þeir aftur og Aljékín endurheimti titilinn með öruggum sigri, 15½ : 9½.

Aljékín lést árið 1946 og og nýr handhafi krúnunnar var Sovétmaðurinn Mikhael Botvinnik. Hann hélt titlinum á jöfnu, 12:12 í einvígi við Bronstein árið 1951 og einnig gegn Smyslov þrem árum síðar. En árið 1957 varð Smyslov heimsmeistari með öruggum sigri, 12½ : 9½. Botvinnik nýtti sér réttinn til annars einvígis og endurheimti titilinn árið 1958. Á sömu leið fór þegar hann tefldi tvisvar við Mikhael Tal sem vann 12½ : 8½ árið 1960 en tapaði svo ári síðar, 8:13. Þessi réttur Botvinniks var afnuminn og hann tapaði fyrir Tigran Petrosjan 9½ : 12½ árið 1963. Hann mætti Boris Spasskí árið 1966 og vann 12½ : 11½. Armeninn er því einn fárra sem náð hafa að verja heimsmeistaratitilinn. Aftur bankaði Spasskí á dyr þrem árum síðar og vann, 12½ : 10½.

Bobby Fischer vann 12½ : 8½ í „einvígi aldarinnar“ í Reykjavík sumarið 1972. Hann afsalaði sér „FIDE-heimsmeistaratitlinum“ og Anatolí Karpov, sem var krýndur vorið 1975 varði titilinn í einvígum við Kortsnoj árin 1978 og 1981.

Allir vissu á hvaða ferð Garrí Kasparov var er hann vann áskorendakeppnina 1983-´84. Fyrsta einvígi hans af fimm gegn Karpov 1984-´84 lauk án niðurstöðu eins og frægt varð en ákveðið að þeir myndu tefla aftur og Kasparov vann haustið 1985 í 24 skáka einvígi, 13:11. Viðureignum hans við Karpov var ekki lokið; þeir tefldu í London og Leningrad, í Sevilla á Spáni og loks í New York og Lyon. Kasparov stóðst allar atlögur.

Árið 1993 varð klofningur í skákheiminum og tveir heimsmeistaratitlar í „umferð“. Þrettán árum síðar vann Kramnik Topalov í „sameiningareinvígi“ en ári síðar náði Indverjinn Anand titlinum og vann Topalov og Gelfand á næstum árum. Svo kom Magnús Carlsen kom til skjalanna. Hann telst sextándi heimsmeistari sögunna

Helgi Ólafsson helol@simnet.is

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast u.þ.b. viku síðar á Skák.is.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 28. apríl 2018

- Auglýsing -