Skáksögufélag Íslands var stofnað 1. nóvember 2014 í tengslum við 150 ára afmælismót Einars Benediktssonar, skálds, að frumkvæði Hrafns Jökulssonar og fleiri. Stofnfélagar þess voru 64 en eru nú helmingi fleiri eða 128 talsins. Félagið er öllum opið.

Tilgangur félagsins er að vinna að því að sögu manntaflsins og skáklistarinnar á  Íslandi verði sem best til haga haldið. Þá skal félagið beita sér varðveislu hvers kyns skákminja og muna, að gögn sem varða íslenskt skáklíf verði varðveitt og saga þess og helstu skákmeistara okkar skráð, eins og segir í lögum þess.

Þó lítið hafi farið fyrir starfsemi Skáksögufélagsins hefur að ýmsu verið unnið á þess vegum bak við tjöldin.  Fyrsta stóra viðfangsefni félagsins var að safna efni, skanna og byggja upp yfirgripsmikinn gangagrunn svo hægt væri að setja upp veglega vefsíðu um skák- og afreksferil  Friðriks Ólafssonar, fyrsta og fremsta skákmeistara okkar.  Heimasíðan var formlega opnuð af Illuga Gunnarssyni, þáverandi menntamálaráðherra  fyrir tveimur árum.  Um er að ræða afar fjölbreytta upplýsingasíðu með ótal gömlum blaðafréttum, viðtölum og greinum um meistarann, auk yfirlits um öll þau mörgu mót  sem hann tefldi á, nær allar skákir hans og  helstu mótherja. Heimasíðan er

ríkulega skreytt ljósmyndum frá ferli Friðriks og úr íslensku skáklífi frá miðbiki síðustu aldar fram til þessa dags.  Til verksins naut Skáksögufélagið verkefnisstyrks frá Alþingi og Menntamálaráðuneytinu, sem nú hefur verið aukið við til nýrra viðfangsefna.

Ber þar fyrst að nefna að nú er unnað að ritun og útgáfu Skákævisögu Friðriks Ólafssonar. Fyrir nokkru síðan var gerður samningur við Helga Ólafsson, stórmeistara, um að taka þetta verðuga verkefni að sér sem aðalritstjóri og höfundur. Áður höfðu nokkrir aðrir hafið það verk en ekki lokið.  Honum til halds og trausts eru í ritnefnd auk Friðriks, þeir Jón Þ. Þór og Jón Torfason, báðir kunnir sagnfræðingar og skákmenn góðir. Áformað er að bókin komi út að rúmu ári liðnu eða haustið 2019 og verði myndarlegur prentgripur.

Þá stendur einnig fyrir dyrum að setja brjóstmynd meistarans á stall innan tíðar, en nú  er verið að steypa gifsmynd hennar í eir út í Moskvu. Styttan var gerð fyrir aldarfjórðungi af hinum kunna rússnesk/bandaríska myndhöggvara Peter Saphiro en hefur verið í geymslu um árabil. Það var Ólafur Egilsson, fyrrv. sendiherra, sem hafði milligöngu um gerð gifsstyttunnar á sínum tíma og hefur nú aðstoðað við láta steypa hana í bronz þar ytra. Minnismerkið myndi sóma  sér vel við útitaflið í miðborg Reykjavíkur, en Friðrik er heiðursborgari hennar, samþykki borgarstjórn væntanlega beiðni þar um.

Þá hefur einnig verið óskað eftir því við umhverfis- og skipulagsnefnd borgarinnar að fá að merkja goðsögninni Bobby Fischer bekk þar í grennd en verið er að hanna koparskilti með lágmynd hans til uppfestingar.  Sagt er að Bobby heitinn muni hafi vermt fleiri útibekki í miðborginni, við Skólavörðustíginn og kringum tjörnina en nokkur annar síðustu ár sín hér,

Að lokum má geta þess að sú hugmynd hefur verið viðruð við borgarstjóra fyrir nokkru að efnt verði til alþjóðlegrar hönnunarsamkeppni um gerð stórrar  höggmyndar um „Einvígi aldarinnar“ eða allra tíma eins og það er nú nefnt, heimsmeistaraeinvígi þeirra Fischers og Spasskys, í skugga kalda stríðsins, hér í Reykjavík 1972.  Vel færi að að vígja mikilfenglegt útilistaverk því tengdu eigi síðar en á 50 ára afmæli þessa heimssögulega viðburðar sumarið 2022. Það myndi sóma sér vel t.d. vestan við Laugardalshöllina á horni Laugavegs og Reykjavegar.   Nú er kominn tími á að hrinda þessari gömlu hugmynd í framkvæmd enda bara eitt kjörtímabil til stefnu.

Stjórn Skáksögufélagsins skipa þeir: Einar S. Einarsson, forseti; Jón Þ. Þór, varaforseti;  Jón Torfason, Róbert Lagerman Harðarson og Guðmundur G. Þórarinsson;.

Fyrir þá sem vilja gerast félagar er bara að senda póst á netfang þess: skaksogufelagid@gmail.com

Heimasíðan: www.skaksogufelagid.is eða www.fridrikolafsson.com.

- Auglýsing -